Vinnuhópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins hefur skilað af sér skýrslu um mönnunarviðmið í hjúkrun á bráðalegudeildum Landspítala og sjúkrahússins á Akureyri. Vinnuhópurinn skoðaði meðal annars mönnunarviðmið í nokkrum löndum þar sem þau hafa verið innleidd, kynnti sér niðurstöður rannsókna og leitaði eftir ráðleggingum og áliti sérfræðinga og fagfólks.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir var formaður vinnuhópsins en Ólafur G. Skúlason, framkvæmdastjóri hjúkrunar og Elín Hafsteinsdóttir verkefnastjóri voru einnig í hópnum fyrir hönd Landspítala.
„Mönnunarviðmið í hjúkrun eru mikilvægur þáttur í því að tryggja öryggi sjúklinga á heilbrigðisstofnunum og tryggja gæði þeirrar hjúkrunar sem veitt er. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að aukin mönnun hjúkrunarfræðinga hefur í för með sér lægri dánartíðni, styttri legutíma, aukna hagkvæmni og betri upplifun sjúklinga af heilbrigðisþjónustu. Við fögnum því útgáfu þessarar skýrslu um mönnunarviðmið í hjúkrun og hlökkum til þess að vinna áfram að þeirri vegferð að bæta mönnun og skipulag hjúkrunar í samstarfi við stjórnvöld,“ segir Ólafur