Þrýstingssár eru áverkar á húð og undirliggjandi vef sem myndast vegna staðbundins þrýstings eða álags. Þrýstingssár eru líka nefnd legusár því að þau myndast oftast hjá fólki sem á erfitt með að hreyfa sig og situr eða liggur mikið í sömu stellingu. Því lengur sem þrýstingur varir því meiri hætta er á að alvarlegt sár myndist.
Í ár ákvað Landspítali að einblína á hælinn, en næstflest þrýstingssár hjá fullorðnum myndast þar.
Gæðakannanir á Landspítala sýna að um 25% þrýstingssára eru á hælum og flest þeirra eru alvarleg, með tilheyrandi vanlíðan, lengri sjúkrahúslegu og kostnaði. Mjög grunnt er að beini á hælasvæðinu en auðvelt er að fyrirbyggja þrýstingssár sem myndast þar með því að lyfta hælnum upp frá dýnu.
Ákveðið var að setja upp „Hælahorn“ í þremur byggingum Landspítala þennan dag, þar var m.a. í boði fræðsla og sýnikennsla á því hvernig megi fyrirbyggja myndun þrýstingssára á hæl m.a. með notkun hælahlífa.
Á vef Landspítala má nálgast ítarlegt fræðsluefni um þrýstingssáravarnir.