Verkfallsaðgerðir sem standa yfir frá miðnætti til hádegis þá daga sem þær eru skipulagðar munu hafa áhrif á starfsemi og þjónustu við sjúklinga.
Læknar á Landspítala munu sinna öllum bráðum tilvikum og eftir aðstæðum vinna venjubundin störf þar sem því verður fyrir komið. Göngudeildarþjónustu verður sinnt þar sem því verður við komið með samþykktum undanþágum.
Ljóst er að sjúklingar sem eiga bókaða tíma á göngudeildum frá 08:00 – 12:00 þá daga sem fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir standa yfir geta átt von á því að sá tími falli niður. Þurfi að færa til bókaða tíma verður það gert samdægurs en ekki með lengri fyrirvara.
Sjúklingar og skjólstæðingar Landspítala eru hvattir til þess að fylgjast með í fjölmiðlum að morgni verkfallsdags hvort verkfallsaðgerðir séu í gangi eða hvort fallið hafi verið frá aðgerðum.
Búast má við auknu álagi á bráðamóttökur Landspítala þar sem verkfallsaðgerðir snúa einnig að störfum lækna á heilsugæslustöðvum.
Á bráðamóttökum verður sjúklingum sem fyrr forgangsraðað eftir bráðleika og alvarleika sjúkdóma eða slysa.