Fjárveitingin, sem nemur um 650 milljónum króna, verður nýtt til að reisa viðbyggingu við húsnæði bráðamóttökunnar en plássleysi þar er búið að vera viðvarandi og alvarlegt vandamál um nokkurra ára skeið. Um 36 meðferðarstæði eru á bráðamóttökunni en algengt er að rúmlega tvöfalt fleiri sjúklingar liggi þar sem er óboðlegt og ógnar öryggi sjúklinga.
Viðbyggingin við bráðamóttökuna verður svokallað einingahús en markmiðið er að koma henni upp sem allra fyrst því vandinn er aðkallandi. Vonir standa til að hægt verði að taka viðbygginguna í notkun og létta þannig á vandamálum sem tengjast plássleysi innan 12 mánaða.
Í tengslum við nýju viðbygginguna verður komið á laggirnar svokallaðri matsdeild sem ætluð er sjúklingum sem komið hafa á bráðamóttöku og bíða innlagnar á legudeild og aðra þá sem þarfnast mats og vöktunar áður en ákvörðun um innlögn er tekin. Við núverandi aðstæður hefur plássleysi gert það að verkum að þessir einstaklingar þurfa að liggja langtímum saman á göngum bráðamóttökunnar.
Með því að færa þá sjúklinga sem bíða eftir innlögn á legudeildir spítalans af göngum bráðamóttökunnar og koma á laggirnar matsdeild fyrir bráðveika skapast betri aðstæður til að auka öryggi og gæði þjónustunnar. Slík matsdeild er að erlendri fyrirmynd og skapar ásamt bráðadagdeild lyflækninga tækifæri fyrir aukna skilvirkni við forgangsröðun við meðhöndlun sjúklinga.
Eðlilegt er að spyrja hvers vegna ráðist sé í verkefni af þessu tagi á meðan verið sé að byggja nýjan spítala við Hringbraut. Ástæðan er sú að þegar ráðist var í byggingu nýs Landspítala árið 2017 var gert ráð fyrir að meðferðarkjarninn yrði tekinn í notkun árið 2023. Nú, í lok árs 2024, er stefnt að því að byggingin verði ekki tekin í notkun fyrr en á árinu 2029. Þessi sex ára seinkun veldur því að óhjákvæmilegt er að bregðast við. Lítið sem ekkert hefur verið aðhafst til að bæta aðstöðu bráðaþjónustunnar undanfarin ár vegna byggingar meðferðarkjarnans við Hringbraut.
Við þetta má bæta að á sama tíma og seinkun hefur orðið á framkvæmdum við nýjan Landspítala hafa orðið hér á landi örari samfélagsbreytingar en nokkurn óraði fyrir. Sem dæmi um það hefur landsmönnum fjölgað um 34.000 á síðustu fimm árum. Fjölgun íbúa fylgir eðlilega meiri eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu, með auknu álagi á bráðaþjónustu. Við þessa fjölgun bætist svo fjölgun aldraðra sem hefur verið fyrirsjáanleg. Búist er við að íbúum fjölgi enn frekar á komandi árum og gera spár okkar ráð fyrir að verkefni bráðaþjónustu Landspítala muni vaxa um 12% næstu 5 árin. Án viðeigandi viðbragða innan sem utan spítalans eru afleiðingarnar augljósar, ekki verður hægt að veita fullnægjandi þjónustu með þeim afleiðingum sem það hefur fyrir veikasta fólk samfélagsins. Bætt aðstaða bráðamóttökunnar í Fossvogi er því skref í rétta átt.
En þó að nauðsynlegt sé að bæta aðstöðu bráðaþjónustunnar þá er mikilvægt að halda því til haga að forgangsverkefni stjórnvalda hlýtur að vera að fjölga hjúkrunarrýmum svo unnt sé að flytja frá spítalanum sjúklinga sem lokið hafa meðferð. Undanfarið hafa um 80 einstaklingar verið í þeirri stöðu. Í dag vantar um 400 hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu og þörfin mun aukast um 100 rými árlega. Innviðaskuldin er þegar stór og ljóst að Landspítali mun ekki alfarið komast hjá því að annast tímabundið einstaklinga sem ættu að þiggja þjónustu á hjúkrunarheimili næstu ár en sá fjöldi verður að lækka.
Landspítali er sérhæft háskólasjúkrahús sem fyrst og fremst hefur það hlutverk að veita þjónustu alvarlega veikum einstaklingum, en nú eru 13% legurýma spítalans nýtt af einstaklingum sem bíða búsetu á hjúkrunarheimili. Vegna þessa og vaxandi fjölda sjúklinga sem þarfnast þjónustu Landspítala er nauðsynlegt að fjölga legurýmum, en í dag vantar yfir 100 legurými til að hægt sé að taka við öllum þeim einstaklingum sem þarfnast innlagnar á skilvirkan hátt. Enn fremur er orðið aðkallandi að bæta aðstöðu spítalans á sviði göngu- og dagdeildarstarfsemi og geðþjónustu en þessir mikilvægu þjónustuþættir tilheyra öðrum áfanga uppbyggingar nýs Landspítala sem er ekki hafinn.
Aðsteðjandi áskoranir eru ærnar og við þeim þarf að bregðast á margvíslegan máta svo Landspítali geti rækt sitt mikilvæga hlutverk í íslensku samfélagi á viðunandi hátt.