NordicProof er samstarfsvettvangur sérfræðinga, rannsóknaraðila, fyrirtækja og heilsustofnana á Norðurlöndum sem hafa það að markmiði sínu að prófa og vinna saman að framþróun og prófunum á fjölbreyttum heilbrigðislausnum. Landspítali er aðili að þessum mikilvæga samstarfsvettvangi.
Með þessu samstarfi skapast tækifæri fyrir Landspítala að vera þátttakandi og samstarfsaðili með öðrum heilbrigðisstofnunum, vísindagörðum, og fyrirtækjum á Norðurlöndunum sem vinna að því að prófa og þróa lausnir í heilbrigðistækni, s.s. stafrænna lausna og lækningatækja.
Einn af máttarstólpum þess að móta nýsköpunarferla til framþróunar á Landspítala og að stunda faglega nýsköpun í sinni víðu mynd er að efla og móta samstarf sem þetta. Með þessu skapast tækifæri til að kynnast nýjum lausnum hraðar, vinna að þróun lausna í samstarfi við aðra, að Landspítali verði nýttur til að prófa lausnir og til að efla samstarf í vísindarannsóknum. Einnig til að kynna og koma áfram okkar nýþróun á Landspítala sem að getur stuðlað að nýsköpun annars staðar.
Sendinefndin frá Norðurlöndunum samanstóð af 15 aðilum frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.
Svava María Atladóttir framkvæmdastjóri Þróunarsviðs og Sigurður Þórarinsson tækni- og nýsköpunarstjóri sögðu frá stefnu í stafrænni þróun og nýsköpunarstarfi Landspítala í dag.
Halla Sigrún Arnardóttir frá Vísindadeild og Halldór Jónsson frá Heilbrigðistæknisetrinu í Háskólanum í Reykjavík sögðu frá starfsemi sinni.
Hópurinn átti einnig fundi með fyrirtækjum í heilbrigðistækni hér á landi þar sem þau kynntu lausnir sýnar fyrir norrænu gestunum.
Á myndinni má sjá Runólf Pálsson forstjóra kynna stjórnskipulag Landspítala og helstu áskoranir sem eru sameiginlegar í heilbrigðisgeiranum á Norðurlöndunum, sem og víðar.