Dagur vinnuverndar var haldinn í Hringsal 9. október s.l. og var þátttaka góð, bæði í Hringsal og í streymi. Þetta var í 7. skipti sem að dagur vinnuverndar er haldinn á Landspítala.
Áhugaverð málefni voru tekin fyrir á deginum. Áherslan í ár var á sálfélagslega þætti í vinnuumhverfinu, andlega heilsu í krefjandi störfum, samskipti og hvernig við berum okkur að í erfiðum samskiptum og bregðumst við ofbeldisógn.
Á degi vinnuverndar er venja að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi vinnuverndarstarf. Vinnuumhverfisnet Landspítala samanstendur af um það bil 115 öryggistrúnaðarmönnum, stjórnendum starfseininga, Vinnuverndarfulltrúa Landspítala, heilsuteymi mannauðsdeildar og öryggisnefnd spítalans.
Samstarf þessara aðila er mikilvægt til að ná árangri í vinnuverndarmálum. Verkefnin eru mikilvæg og bætast oft við hin hefðbundu störf öryggistrúnaðarmanna og því ber sérstaklega að þakka.
Í ár voru veittar tvær viðurkenningar fyrir framúrskarandi vinnuverndarstarf, öryggistrúnaðarmanni og forstöðuhjúkrunarfræðing/deildarstjóra:
- Júlíana Guðrún Þórðardóttir, forstöðuhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á göngudeild lyndisraskana.
- Svava Dagný Árnadóttir, verkefnastjóri og öryggistrúnaðarmaður á göngudeild lyndisraskana.