Dagana 22.-27. september stendur yfir vitundarvakning um hættur í umhverfinu sem leitt geta til þess að fólk hrasar og dettur.
Hætta á byltum er mest hjá sjúklingum sem eru 65 ára eða eldri og hjá sjúklingum 50-64 ára sem metnir eru í byltuhættu vegna undirliggjandi sjúkdóma eða ástands.
Með aldrinum minnkar smám saman geta okkar til að stjórna jafnvæginu eins vel og áður. Einstaklingur sem dettur er líklegur til að missa sjálfstraust og hreyfa sig minna í kjölfarið, sem dregur úr vöðvastyrk og sjálfstæði og eykur líkur á að detta aftur. Það er margt sem við getum gert til að fyrirbyggja byltur og í tilefni alþjóðlegrar viku byltuvarna tókum við á Landspítala saman nokkur ráð í forvarnaskyni.
Jafnvægisæfingar
Rannsóknir sýna að hægt er að þjálfa jafnvægið. Jafnvægisæfingar eru sérstaklega mikilvægar fyrir fólk eftir fimmtugt og reyna bæði á stöðugleika og fallviðbrögð.
Vatn og matur
Líkaminn þarf góða næringu til að viðhalda hreyfifærni. Eldra fólk þarf sérstaklega að huga að því að fá nægilega próteinríkan mat til að forðast vöðvarýrnun, drekka nægan vökva og taka inn D vítamín.
Byltuhættur
Gott er að fá aðstoð við að fara yfir nánasta umhverfi og fjarlægja allt sem hægt er að hrasa um. Burt með lausar mottur og hluti úr gangvegi. Skór þurfa að passa og stamir sokkar geta verið hjálplegir.
Hjálpartæki
Hægt er að fá ráð hjá heilbrigðisstarfsfólki á Landspítala og heilsugæslunni um notkun hjálpartækja til stuðnings. Sérstaklega er mikilvægt að huga að baðherberginu.
Líkamlegt ástand
Sum lyf, til dæmis róandi lyf og svefnlyf geta haft áhrif á jafnvægi. Mikilvægt er til dæmis að fara á salerni fyrir nóttina áður en svefnlyf eru tekin. Farðu árlega til læknis og fáðu mat á byltuhættu ásamt samtali um forvarnir.
Í meðfylgjandi myndbandi er sagt frá umhverfisúttekt á deild L2 á Landakoti til að fyrirbyggja byltur en stuðst var við gæðaskjal sem er að finna í gæðahandbók Landspítala. Rætt er við Bergþóru Baldursdóttur, verkefnastjóra byltuvarna, Sesselju Lind Magnúsdóttir, deildarstjóra L2, og Jakobínu Rut Daníelsdóttur, sjúkraliða á L2.