Að þessu sinni er þema dagsins greiningar og mikilvægi þess að greina sjúkdóma hratt og örugglega til að auka öryggi sjúklinga.
Á Landspítala vinnum við sífellt að bættum greiningum. Eitt af mörgum góðum dæmum má finna inni á speglunardeild og ljósmyndari Landspítala kíkti þangað og festi teymisvinnu við greiningu á filmu.
Þegar grunur er um bólgusjúkdóm eða krabbamein í eitlum nálægt berkjutré lunga getur þurft að grípa til berkjuómspeglunar. Sjúklingur mætir fastandi rétt fyrir hádegi fyrst á dagdeild og síðan á speglunardeild og er sinnt af þéttu teymi fagfólks.
Aðgerð hefst með því að svæfingarlæknir og svæfingarhjúkrunarfræðingur svæfa sjúklinginn. Þau vakta síðan sjúklinginn meðan á aðgerðinni stendur og vekja hann að aðgerð lokinni.
Hér má sjá Sigurveigu Björgólfsdóttur svæfingahjúkrunarfræðing og Einar Frey Ingason svæfingalækni að störfum.
Oftast eru tveir speglunarhjúkrunarfræðingar viðstaddir sem aðstoða við speglunina, deyfingu og sýnatöku. Hér er Beh Yee Joe að undirbúa sýnaglös.
„Í þessum speglunum breytumst við lungnalæknarnir eiginlega í rannsakendur þar sem við notum ólík tæki og tól að rannsaka loftvegi og líffæri í kringum þá. Fyrst skoðum við fyrirliggjandi myndrannsóknir, oftast tölvusneiðmynd og stundum jáeindaskanna, og síðan skoðum við loftvegina með myndavél og eitlastöðvar í kringum þá með ómskoðun. Við söfnum sýnum sem eru síðan greind á staðnum.“ - Hrönn Harðardóttir, lungnalæknir
Sýni eru skoðuð strax af meinafræðingi og greind á staðnum.
Læknar frá meinafræðideild koma á staðinn og skoða sýnin strax og í flestum tilfellum liggur bráðabirgðagreining fyrir á meðan á rannsókn stendur. Hér er Ingibjörg Guðmundsdóttir sérfræðilæknir að skoða sýni.
Sjúklingur fer heim þegar hann er vel vaknaður og hefur jafnað sig eftir inngripið. Í framhaldi er honum boðið samtal við sinn lækni þar sem farið er yfir niðurstöðurnar.