Eins og gerist jafnan á haustin þá eru birgðir Blóðbankans í lágmarki og brýn þörf á blóði í öllum flokkum. Þetta má að einhverju leyti skrifa á að landsmenn eru iðulega á ferðalögum á sumrin og ef til vill í aðeins öðrum gír en á veturna.
Nú þegar haustið er að ganga í garð vilja Landspítali og Blóðbankinn hvetja alla blóðgjafa til að kíkja í heimsókn og gefa blóð. Það verður tekið vel á móti ykkur.
Blóðbankinn þarf um 12.000 blóðgjafir á ári hverju til að mæta þörfum sjúklinga, eða um 250 á viku. Reglulega þarf að kalla sérstaklega eftir blóðgjöfum þegar birgðastaðan er lág, enda mikilvægt að sjúklingar geti fengið blóð með litlum fyrirvara.
En hvað verður um blóðið?
Í meðfylgjandi myndböndum er rætt við Signýju Völu Sveinsdóttur, yfirlækni blóðlækninga á Landspítala og Árna Má Haraldsson, deildarstjóra gjörgæslu Landspítala Hringbraut, sem fara yfir mikilvægi blóðgjafa í starfsemi spítalans.
Blóðbankinn er alltaf að leita að heilsuhraustu fólki sem er tilbúið að gefa blóð þegar þörf er á. Ef þú ert á aldrinum 18-65 ára og hefur áhuga á að gerast gæðablóð skaltu smella hér.