Sem yfirlæknir stefnu og þróunar lækninga mun Gunnar leiða ákveðna þætti skipulags, þróunar og faglegrar stefnumörkunar lækninga á Landspítala í samvinnu við þróunarsvið og lykilstjórnendur annarra sviða Landspítala.
Á erlendum háskólasjúkrahúsum sem Landspítali vill bera sig saman við er löng hefð fyrir sambærilegum stöðum lækna, s.s. „Head of Strategic Development“, „Head of Clinical Effectiveness“ og „Chief Medical Information Officer“. Mikilvægt er að lækningar á Landspítala þróist á sambærilegan hátt og er ráðning nýs yfirlæknis stór hluti af þeirri viðleitni.
Á Landspítala fer fram öflugt starf á sviði stafrænnar þróunar og nýsköpunar. Samhliða því er afar mikilvægt að tryggja samstarf við lækna spítalans þannig að viðeigandi forsendur og ávinningur fyrir sjúklinga okkar og starfsfólk séu tryggð. Þannig hámörkum við nýtingu úrræða, sjálfbærni og tryggjum öryggi þjónustunnar. Nýr yfirlæknir mun miðla þessum mikilvægu tengslum milli þróunarsviðs og klínískrar starfsemi. Jafnframt mun hann stuðla enn frekar að innleiðingu viðeigandi nýjunga í læknavísindum og bætts vinnulags ásamt því að efla menningu stöðugra umbóta og nýsköpunar. Þá eru samræmt og gagnsætt vinnuskipulag lækna, áframhaldandi uppbygging heildstæðs gæðastjórnunarkerfis, nýting gagna til umbóta, og markviss nýting klínískra leiðbeininga og gæða- og árangursvísa nokkur áhersluatriða framkvæmdastjóra lækninga sem yfirlæknir stefnu og þróunar mun einnig hafa beina aðkomu að.
Lögð verður áhersla á að þróa og gefa út áfangaskipta stefnumörkun fyrir lækningar á Landspítala í samræmi við stefnu forstjóra, framkvæmdastjórnar og heilbrigðisstefnu Íslands og mun yfirlæknir stefnu og þróunar leiða þá vinnu. Starfið verður endurskoðað að ári með hliðsjón af þeirri þróun og uppbyggingu sem þá hefur átt sér stað.
Gunnar hefur verið yfirlæknir sérnáms undanfarin ár en samhliða því hefur hann tekið þátt í fjölmörgum þróunarverkefnum á vegum framkvæmdastjóra lækninga, forstjóra og heilbrigðisráðuneytis. „Jafnvel þótt það kunni að virðast augljóst, þá verður mér sífellt ljósara mikilvægi þess að vinna markvisst að skýrri stefnu til framtíðar í hinu flókna umhverfi heilbrigðisþjónustunnar. Við skipulag heilbrigðisþjónustu á Landspítala eru teknar ótal stefnumarkandi ákvarðanir á fjölmörgum stöðum en með því að geta stuðst við skýra framtíðarsýn margfaldast líkur á gagnlegum og samræmdum ákvörðunum. Stefnan segir okkur hvert við ætlum og þróunarvinnan færir okkur á áfangastað.“