Á myndinni eru í efri röð: Aníta Ýr hjúkrunarfræðingur, Hafsteinn Hafsteinsson, Hlynur hjúkrunarfræðinemi, Charles hjúkrunarfræðingur, Nína ritari, Katarin sjúkraliðanemi, Luz sjúkraliðanemi, Alice starfsmaður, Berglind hjúkrunarfræðingur og Garðar Freyr sjúkraliði. Neðri röð: Viktor læknanemi, Guðbjörn læknanemi og Daníel Geir læknir.
Hafsteinn liggur inni á hjarta-, lungna og augnskurðdeild 12G þar sem hann er að jafna sig eftir stóra hjartaaðgerð þar sem skipt var um hjartaloku. Eftir aðgerðina kom hann auga á sömu stólana frá því að hann lá á deildinni fyrir 11 árum síðan og fannst tími til kominn að uppfæra þá. Hafsteini er framtakssamur í meira lagi og lét því verkin tala.
Mbl.is náði tali af Hafsteini í gær þar sem farið var yfir söfnunina: „Málið er að ég fór í opna hjartaaðgerð 2013 og svo aftur á fimmtudaginn síðasta. Svo þegar ég kom af gjörgæslu niður á deild 12G til að jafna mig fór ég í framhaldinu að þramma um gangana. Ég endaði inni á setustofu þar sem ég sá erkióvin minn síðan úr síðustu aðgerð. Það var bölvaður bilaður Lazyboy-stóll sem ég lá fastur í í um 45 mínútur eina nóttina árið 2013 áður en ég náði sambandi við einhvern,“ segir Hafsteinn.
Bætir hann því við að það geti reynst þrautinni þyngri að beita sér þegar maður er nýkominn úr stórri aðgerð þar sem bringubeinið er m.a. brotið upp.
Fyrir vikið ákvað að hann að grípa til sinna ráða og hefja söfnunina.
Hafsteinn segir að stólarnir hafi ekki mátt koma mikið seinna þar sem Ólympíuleikarnir séu í þann mund að hefjast. Sjúklingar geti því notið þeirra án þess að eiga það á hættu að festast líkt og Hafsteinn forðum.
Landspítali þakkar Hafsteini kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf.