Aðgerðin gekk vel og heilsast bæði nýrnagjafa og nýrnaþega vel. Árni Sæmundsson sérfræðilæknir framkvæmdi aðgerðina og segir að hefði aðgerðaþjarkans ekki notið við hefði í þessu tilfelli þurft að notast við opinn holskurð, sem er áhættumeiri aðgerð, krefst lengri dvalar á spítala og getur haft talsverða verki í för með sér. Hingað til hefur stærstur hluti nýrnagjafa verið meðhöndlaður með kviðsjáraðgerð en opinn holskurð hefur reglulega þurft til, einkum í tilfelli einstaklinga sem eru með aukaæðar til nýrans eða eru í ofþyngd.
Aðgerðin með þjarkanum markar enn ein tímamótin í nýrnaígræðslum á Íslandi og er þjónusta Landspítala sambærileg við stór og öflug sjúkrahús erlendis. Í nýlegri grein í vísindatímaritinu Frontiers in Transplantation fjalla Þórður P. Pálsson, sem stundar sérnám í þvagfæraskurðlækningum í Kaupmannahöfn, o.fl. um rannsókn á nýrnaígræðslum sem fram fór undir stjórn Runólfs Pálssonar, sérfræðings í nýrnalækningum og núverandi forstjóra Landspítala. Í rannsókninni voru skoðaðar allar nýrnaígræðslur í íslenska sjúklinga á árunum 2000–2019.
Árni Sæmundsson sérfræðilæknir framkvæmdi aðgerðina.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að nýrnaígræðslur á Landspítala frá lifandi gjöfum, sem hófust á Íslandi árið 2003, hafa skilað framúrskarandi árangri sem er sambærilegur þeim sem þekkist á fremstu sjúkrahúsum í öðrum löndum. Nýrnaígræðslur úr látnum gjöfum eru oftar framkvæmdar erlendis og lifun nýrna sem grædd voru í íslenska sjúklinga á erlendum sjúkrahúsum telst með ágætum, þrátt fyrir löng ferðalög. Sú ákvörðun að hefja nýrnaígræðslur á Íslandi þótti djörf á sínum tíma sökum fámennis þar sem aðeins fáar aðgerðir yrðu framkvæmdar á ári hverju. Ákvörðunin hefur þó sannarlega sannað gildi sitt og skilað sér í bættum lífslíkum og lífsgæðum sjúklinga auk þess sem nýrnaígræðslum hefur fjölgað verulega.
Nýrun gegna veigamiklu hlutverki í líkamsstarfseminni, meðal annars að losa líkamann við úrgangsefni í blóði. Besta meðferðin við nýrnabilun á lokastigi er nýrnaígræðsla en að öðrum kosti þurfa sjúklingar að undirgangast reglulega og tímafreka nýrnaskilun þar sem úrgangsefni og vökvi eru fjarlægð úr blóði. Hlutfall nýrnasjúklinga með ígrætt nýra er hærra á Íslandi en annars staðar, eða um 70% samanborið við 40–50% sjúklinga í mörgum Evrópulöndum, sem er mjög jákvætt fyrir þá sjúklinga sem í hlut eiga. Samhliða hefur kostnaður við nýrnaígræðslur farið lækkandi, ekki síst þar sem færri sjúklingar þurfa að fara utan til meðferðar, með tilheyrandi óhagræði fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra.
Forsenda þessa árangurs er annars vegar öflugt samstarf við stærri sjúkrahús erlendis og hins vegar að innan Landspítala sé bæði fyrir hendi sú tækni og fagþekking sem til þarf. Aðkoma Jóhanns Jónssonar ígræðsluskurðlæknis var lykilþáttur á sínum tíma en hann sinnti lengst af nýrnaígræðsluaðgerðunum á Landspítala, samhliða störfum við Fairfax Inova-sjúkrahúsð í Virginia í Bandaríkjunum. Í dag hvíla þessar aðgerðir á herðum Rafns Hilmarssonar yfirlæknis og Árna Sæmundssonar, sem sneri nýverið til baka frá Svíþjóð, en þeir njóta enn stuðnings Jóhanns Jónssonar og Eiríks Jónssonar, fyrrverandi yfirlæknis þvagfæraskurðlækninga. Eftirlit og meðferð nýrnaþega er svo í höndum nýrnalækna spítalans.
Í sérnámi sínu í þvagfæraskurðlækningum notaðist Árni mest við aðgerðaþjarka en lærði einnig kviðsjáraðgerðir, sem eru þó farnar að heyra til undantekninga á Norðurlöndunum. Það er því gríðarlega mikilvægt að Landspítali búi yfir þeirri tækni sem fremst er hverju sinni. Aðgerðin nú í júní markar mikilvæg tímamót bæði á Landspítala og í íslensku samfélagi, sem getur státað af uppbyggingu á nýrnaígræðsluþjónustu í heimsklassa.