Í ár voru sjö einstaklingar og fjögur teymi heiðruð og munum við á næstu vikum birta viðtöl sem tekin voru við það tækifæri.
Á meðal þeirra sem voru heiðruð í ár er Dagbjörg Birna Sigurðardóttir, barna- og unglingageðlæknir á BUGL, sem tilnefnd var í flokknum Fagmennska.
Dagbjörg hefur starfað á BUGL í aldarfjórðung. Deildin fæst við einn flóknasta og erfiðasta sjúklingahópinn þar sem miklu máli skiptir að horfa á mál frá mörgum sjónarhornum og sýna hlýju og nærgætni í samskiptum við fjölskyldur sem eru á viðkvæmum tímapunkti í sínu lífi.
Umsögn valnefndar: „Dagbjörg er frumkvöðull og brautryðjandi í tilkomu og þróun meðferðar við átröskun og gegnir mikilvægu hlutverki í framþróun átröskunarteymisins. Í öllum sínum störfum gengur Dagbjörg á undan með góðu fordæmi og leggur áherslu á stöðugar umbætur. Hún gefur sér alltaf tíma til að ræða málin frá öllum hliðum og leita að bestu lausninni.“
Dagbjörg Birna Sigurðardóttir barna- og unglingageðlæknir heiðruð í flokki fagmennska from Landspítali on Vimeo.