Ásamt Landspítala voru Rigshospitalet í Kaupmannahöfn, Karolinska-háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi, Háskólasjúkrahúsið í Osló og Háskólasjúkrahúsið í Helsinki þátttakendur í stofnun samtakanna.
Í stofnskjali samtakanna kemur fram að markmið samstarfsins sé að efla tengsl og samstarf milli sjúkrahúsanna og marka stefnu um hvernig sé best að takast á við þær sameiginlegu áskoranir sem blasa við heilbrigðiskerfum Norðurlandaþjóða.
Samtökin hafa það að markmiði að bæta gæði og efla nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og að auka samstarf um rannsóknir og menntun með því að deila og miðla þekkingu á milli háskólasjúkrahúsanna. Þá er stefnt að enn frekari samvinnu við rannsóknir og þróun.
„Það er afar mikilvægt að Landspítali skuli tengjast öflugustu sjúkrahúsum Norðurlanda með þessum formlega hætti. Það eru stór verkefni sem bíða okkar því samfélagið er ört að breytast og áskoranir að birtast víða. Saman getum við ásamt vinum okkar á Norðurlöndum unnið að því að finna bestu mögulegu leiðir til að bæta þjónustu við sjúklinga, meðal annars með þróun stafrænna lausna. Enn fremur sjáum við fram á tækifæri til að auka gæði vísindarannsókna.“ segir Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala.