Project SEARCH er níu mánaða starfsnám fyrir fatlað fólk sem hefur lokið framhaldsskóla. Markmið námsins er að starfsnemar öðlist fjölbreytta vinnufærni sem nýtist þeim til að starfa á almennum vinnumarkaði.
Verkefnið er unnið í samstarfi við Ás styrktarfélag sem leggur til námsefni, leiðbeinendur og sinnir starfsnemum á námstímanum ásamt eftirfylgni eftir útskrift. Aðkoma Landspítala felur í sér að útvega aðstöðu til kennslu og starfsþjálfunar og tengilið sem aðstoðar við að finna störf.
Landspítali hefur boðið upp á fjölbreytt störf á ólíkum starfsstöðvum sem nemarnir sinna í tíu vikur í senn. Þetta er annað árið í röð sem vinnustaðurinn tekur þátt í Project SEARCH og erum við mjög stolt af því. Nemarnir hafa átt lærdómsríkan tíma, eignast góða vini og samstarfsfélaga ásamt því að njóta stuðnings frá sínum leiðbeinendum sem eru þeim innan handar alla daga. Þá hefur vinnuframlag nemanna skipt máli, þau verið fljót að læra og aðlagast vel nýju starfsumhverfi.
Landspítali leggur mikið upp úr jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu og það eru forréttindi að fá að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og greiða götu fatlaðs fólks að vinnumarkaði.