Fjöldi tilnefninga bárust bæði frá starfsfólki og almenningi en var þetta í fyrsta sinn sem almenningi gafst kostur á að tilnefna.
Nýtt fyrirkomulag heiðrana var tekið upp í ár og voru heiðranir veittar í fjórum flokkum sem taka mið af gildum Landspítala, Umhyggja, Öryggi, Fagmennska og Framþróun, ásamt fimmta flokknum, sem heitir Vinnustaðurinn okkar. Í honum var heiðrað fyrir sérstakt framlag til að gera Landspítala að góðum vinnustað.
Þeir einstaklingar sem heiðraðir voru fengu verk eftir Sigurð Atla Sigurðsson. Verkin eru úr seríu sem spannar 27 verk og saman mynda 8 metra langt verk. Höfundur segir sjálfur orðrétt „Mér finnst viðeigandi að starfsfólk spítalans fái eitt verk úr stærri heild, þar sem ég ímynda mér að spítalinn virki á sama hátt, að öll sem þar vinna skapi þá heild sem er Landspítalinn.“
Einstaklingar sem heiðraðir voru, ásamt umsögn:
Ardís Henriksdóttir, Hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku
Flokkur heiðrunar: Fagmennska
„Ardís er leiðtogi innan hjúkrunar. Hún sinnir hjúkrun af einstakri fagmennsku, er óþrjótandi viskubrunnur og mikil fyrirmynd. Hún drífur samstarfsfólk sitt áfram.“
Dagbjörg B. Sigurðardóttir, Barna- og unglingageðlæknir á BUGL
Flokkur heiðrunar: Fagmennska
„Dagbjörg er frumkvöðull og brautryðjandi í tilkomu og þróun meðferðar við átröskun og gegnir mikilvægu hlutverki í framþróun átröskunarteymisins. Í öllum sínum störfum gengur Dagbjörg á undan með góðu fordæmi og leggur áherslu á stöðugar umbætur. Hún gefur sér alltaf tíma til að ræða málin frá öllum hliðum og leita að bestu lausninni“
Gunnhildur Gunnarsdóttir, Sálfræðingur og teymisstjóri í DAM teymi
Flokkur heiðrunar: Framþróun
„Gunnhildur hefur staðið í forsvari fyrir mikið umbótastarf innan DAM teymisins. Fræðsla við aðstandendur hefur verið stóraukin ásamt virku vísindastarfi. Fagleg vinnubrögð DAM teymisins hafa því aukist á sama tíma og gríðarleg aukning hefur orðið í afköstum, sem má til dæmis sjá á styttri biðlistum“
Jóhann Bjarni Magnússon, Gæða- og upplýsingaöryggisstjóri
Flokkur heiðrunar: Öryggi
„Jóhann Bjarni hefur staðið vörð um upplýsingaöryggi spítalans í gegnum tíðina. Hann er framúrskarandi fyrirmynd í upplýsingatæknimálum. Hann er sannarlega mikil auðlind fyrir spítalann.
Sigríður Lóa Rúnarsdóttir, Aðstoðardeildarstjóri á bráðaöldrunarlækningadeild
Flokkur heiðrunar: Vinnustaðurinn okkar
„Lóa er svo sannarlega límið á deildinni og heldur öllu saman. Hún er glaðlynd, hvetjandi, jákvæð og drífandi. Hún er einstök kona og ómetanlegur starfskraftur. Það ættu allir að eiga eina Lóu“.
Sigurlaug Magnúsdóttir, Hjúkrunarfræðingur á Hjartagátt
Flokkur heiðrunar: Vinnustaðurinn okkar
„Sigurlaug er mikill fjársjóður fyrir samstarfsfólk og sjúklinga. Það er alltaf hægt að treysta á Sigurlaugu og umhyggja hefur einkennt störf hennar alla tíð“.
Sigríður Þórhallsdóttir, Ljósmóðir á Fæðingarvakt
Flokkur heiðrunar: Umhyggja
„Sigríður á farsælan feril sem ljósmóðir. Hún sinnir öllum skjólstæðingum sínum af einstakri hjartahlýju og virðingu. Hún er mjög fær og unun er að fylgjast með henni sinna störfum sínum af fagmennsku.
Teymi sem heiðruð voru, ásamt umsögn:
Teymi hjartaþræðingar
Flokkur heiðrunar: Fagmennska
„Hjartaþræðing krefst mikillar fagmennsku og að fyllsta öryggis sé ávallt gætt. Viðhorf teymisins er einstaklega lausnamiðað og mikil starfsánægja sem og jákvæðni ríkir á deildinni, þannig að eftir því er tekið. Þá hefur teymi Hjartaþræðingar tekist að fjölga aðgerðum og halda biðlistum í skefjum.“
Lungnateymi og heimaöndunarvélateymi
Flokkur heiðrunar: Umhyggja
„Teymin tvö starfa saman og hafa meðal annars fækkað komum á bráðamóttöku, fækkað innlögnum langveikra lungnasjúklinga, bætt líðan þeirra og öryggi. Einnig hafa þau gert mörgum sjúklingum kleift að búa heima í staðinn fyrir að dvelja á spítala eða öðrum stofnunum.“
Blóðhlutahópur Blóðbankans
Flokkur heiðrunar: Framþróun
„Þessi hópur einstaklinga var í forystu fyrir mikilvægt framfaraskref í Blóðbankanum hvað varðar smithreinsun blóðhluta. Gerðar voru rannsóknir og umsvifamiklar innleiðingar vinnuferla sem leiddu til betri afurða til sjúklinga.“
Innlagnastjórar
Flokkur heiðrunar: Öryggi
„Innlagnastjórar stýra flæði sjúklinga og þrátt fyrir krefjandi aðstæður þá setja þær ávallt öryggi sjúklinga í forgang. Þær hafa mikla þrautseigju, eru yfirvegaðar og gríðarlega lausnamiðaðar.“
Hér má sjá myndband frá heiðrunum á ársfundi Landspítala:
Heiðranir starfsfólks Landspítala á ársfundi 2024 from Landspítali on Vimeo.