Með notkun villuveiðigáttarinnar nýtir Landspítalinn nýjustu aðferðir í netöryggi til að auka viðnámsþrótt net- og tölvukerfa spítalans gegn netárásum. Um leið er öryggi upplýsinga um sjúklinga spítalans aukið. Í villuveiðigátt Defend Iceland eru aðferðir tölvuhakkara og skipulagðra netárásarhópa hermdar til að leita með markvissum hætti að veikleikum í upplýsingatæknikerfum notenda kerfisins, í því augnamiði að lagfæra þá áður en tölvuglæpamenn nýta þá til að brjótast inn, ná stjórn á viðkomandi kerfum og taka framkvæma gagnagíslatöku.
Svava María Atladóttir, framkvæmdastjóri þróunar á Landspítala:
Sjúkraskrá gögn og kerfi spítalans eru meðal mikilvægustu innviða Íslands. Vaxandi stafvæðingu í heilbrigðiskerfinu er jákvæð þróun en henni fylgir jafnframt aukin áhætta er netöryggi varðar. Upplýsingaöryggi er sjúklinga öryggi og okkur ber skylda að tryggja gögnin og fyrirbyggja aðgang óprúttna aðila að kerfum okkar. Samstarf við Defend Iceland mun bæði leyfa okkur að bregðast við öryggisveikleikum í kerfum spítalans á öruggan hátt og einnig að taka þátt í að byggja upp öruggara stafrænt samfélag á landsvísu.
Theódór Ragnar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri Defend Iceland:
Markmið Defend Iceland er að búa til öruggt stafrænt samfélag. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að byggja upp öryggisvitund og jákvæða öryggismenningu hjá fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum. Aukin þekking á tilvist og eðli öryggisveikleika í kerfum fyrirtækja og stofnana er forsenda þess að við náum þessu markmiði, enda fjölgar netárásum skipulagðra glæpahópa hratt. Við leggjum áherslu á mikilvægi forvirkra netöryggisráðstafana, sérstaklega þegar kemur að viðkvæmum gögnum almennings og krítískum innviðum samfélagsins. Það er okkur því sérstakt ánægjuefni að Landspítalinn muni ganga á undan með góðu fordæmi og birta opinberlega upplýsingar um alla þá öryggisveikleika sem kunna að finnast í kerfum spítalans – í því skyni að byggja upp þekkingu á öryggisveikleikum. Við bjóðum Landspítalann hjartanlega velkominn í hóp viðskiptavina Defend Iceland og hlökkum til að vinna með honum að öruggara stafrænu samfélagi.
Á myndinni eru frá vinstri: Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, stjórnandi viðskiptaþróunar og meðstofnandi Defend Iceland, Svava María Atladóttir, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landspítala, Theódór Ragnar Gíslason, framkvæmdastjóri og stofnandi Defend Iceland, Sigurður Þórarinsson, nýsköpunar- og tæknistjóri Landspítala og Jóhann Bjarni Magnússon, upplýsingaöryggisstjóri Landspítala.