Með þátttöku Landspítala f.h. Íslands eru öll Norðurlöndin nú hluti af FINOSE samstarfinu. Samningur um inngöngu Íslands í FINOSE, sem fullgildur aðili, var undirritaður í Stokkhólmi þann 11. apríl. Innan FINOSE eru nú Finnland, Noregur, Svíþjóð, Danmörk og Ísland. Danska lyfjaráðið gekk til liðs við samstarfsvettvanginn árið 2023 og síðan þá hefur mikil vinna farið í að aðlaga samstarfið að þörfum stærri hóps og fleiri landa.
Teymi FINOSE frá löndunum fimm mun á næstu mánuðum ræða þá sameiginlegu vinnu sem fram undan er og skipuleggja nýtt upphaf samstarfsins síðar í vor. Að því loknu verða birt og gefin út skjöl sem lýsa sameiginlegu matsferli og aðferðafræði við það. Útgáfa þeirra er í anda stefnu FINOSE um að gera Norræna HTA ferlið og aðferðafræðina aðgengilegri og gagnsærri fyrir fyrirtæki sem vilja nýta sér það.