Jón Gunnlaugur lauk kandídatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands vorið 1982. Eftir kandídatsár og héraðsskyldu starfaði hann á Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði áður en hann hélt til framhaldsnáms í meinafræði í London árið 1985. Í fyrstu starfaði hann á Royal Marsden sjúkrahúsinu í Kensington, en síðan á St. Mary’s sjúkrahúsinu á Praed Street, Paddington. Árið 1989 fékk Jón Gunnlaugur fellowship námsstöðu til eins árs við Beth Israel sjúkrahúsið í Boston í Bandaríkjunum ásamt með kennaranafnbót við Harvard háskólann.
Jón Gunnlaugur hlaut sérfræðiviðurkenningu í meinafræði á Íslandi árið 1989. Frá miðju ári 1990 hefur hann verið starfandi sérfræðingur á meinafræðideild Landspítalans (áður Rannsóknarstofa Háskólans í meinafræði) og yfirlæknir deildarinnar frá 2013. Frá 2001 til 2016 var hann einnig í hlutastarfi yfirlæknir Krabbameinsskrár Íslands hjá Krabbameinsfélaginu. Jón er einn af stofnendum Vefjarannsóknarstofunnar ehf, sem hefur starfað að meinafræðigreiningum sjúkdóma frá hausti 1991.
Jón Gunnlaugur hefur ávallt sinnt mikilli kennslu, fyrst við Nýja hjúkrunarskólann, síðan kennslu í meinatækni við Tækniskóla Íslands og síðast kennslu í meinafræði við læknadeild Háskóla Íslands frá 1999 og þar til nú. Jón Gunnlaugur hlaut framgang í stöðu prófessors í meinafræði við Háskóla Íslands árið 2007.
Jón Gunnlaugur hefur komið að margvíslegum félags- og nefndarstörfum. Hann hefur m.a. verið í Læknaráði Landspítalans (um tíma varaformaður), í vísindaráði bæði Landspítalans og Krabbameinsfélagsins, formaður stöðunefndar Landspítalans, verið í deildarráði læknadeildar Háskóla Íslands og rannsóknarnámsnefnd læknadeildar HÍ.
Helstu áhugasvið Jóns Gunnlaugs í vísindarannsóknum snúa að faraldsfræði og meinafræði sjúkdóma, einkum krabbameina, en einnig þáttum sem áhrif hafa á sjúkdómshorfur sjúklinga og möguleika þeirra á meðferð. Auk þess hefur Jón aðstoðað grunnvísindamenn á Íslandi í alls kyns rannsóknum þeirra, einkum er varðar meinafræði sérþekkingu. Einnig hefur Jón tekið þátt í margvíslegum fjölþjóðlegum vísindarannsóknum með framlagi frá Íslandi og eflt þannig slíkar rannsóknir.
Meginviðfangsefni Jóns í vísindavinnu hafa verið tengd rannsóknum á krabbameinum í skjaldkirtli, ristli og brjóstum. Hann hefur þó komið mjög víða við í rannsóknum og er hann á þessum tíma aðal- eða meðhöfundur á vel yfir 300 vísindagreinum og með um 24.000 tilvitnanir í þá vísindavinnu.
Hér má sjá viðtal sem tekið var við Jón Gunnlaug í tilefni heiðrunarinnar.
Jón Gunnlaugur Jónasson - heiðursvísindamaður Landspítala 2024 from Landspítali on Vimeo.