Þar er fjallað um þau vandamál sem brunasjúklingar þurfa að glíma við eftir útskrift á sjúkrahúsi. Einnig getur starfsfólk fengið þarna talsvert miklar upplýsingar um hvernig sé best að undirbúa brunasjúklinga undir lífið eftir útskrift.
Þessar upplýsingar voru áður aðeins aðgengilegar í gegnum erlendar síður en nú má finna þær allar á sama stað.
Brunaáverkum fylgja ör, á líkama og sál, sem aldrei gróa. Það vilja allir komast út í lífið aftur og stunda vinnu eða nám, en það getur verið erfitt fyrir fólk sem er með mikla varanlega áverka.
Fræðsluvefurinn nýtist einnig þeim sem hafa lent í bílslysum eða fengið krabbamein, til dæmis í andlit, og eiga erfitt með að fóta sig í félagslegum aðstæðum. Það er mikilvægt að kenna sjúklingnum hvernig hann getur brugðist við í aðstæðum þar sem fólk spyr út í ör eða líkamslýti.
Í meðfylgjandi myndbandi er rætt við Lovísu Baldursdóttur, sérfræðing í hjúkrun á Landspítala. Allt efnið á síðunni er unnið af Lovísu, sem kveður Landspítala í vor eftir 40 ár á spítalanum.
„Ég vona að þetta hjálpi mörgum sem hafa hingað til lokað sig af og líka því fólki sem í framtíðinni á eftir að lenda í þessum slysum og þá getur það fengið leiðbeiningar um að fara strax á þessa síðu á meðan það liggur á sjúkrahúsi og haldi því svo áfram eftir útskrift,“ segir Lovísa.
Brunaáverkar - fræðsluvefur Landspítala from Landspítali on Vimeo.