Landspítali birti í dag starfsauglýsingar þar sem auglýst er eftir stjórnendum í stöður forstöðulækna, forstöðuhjúkrunarfræðinga og forstöðumanna. Um er að ræða 23 stöður sem byggja á veigamikilli yfirferð á stjórnskipulagi, stjórnun og getu spítalans til að sinna hlutverki sínu með hagsmuni sjúklinga í öndvegi. Við þessar breytingar eru samhliða lögð niður störf annarra stjórnenda, starfsskyldur færðar til og tvö svið spítalans sameinuð í eitt.
Ný störf forstöðuhjúkrunarfræðinga, forstöðulækna og forstöðumanna eiga að styðja við þjónustu og rekstur klínískra eininga með virkri þátttöku í klínísku starfi. Auk þess voru tvö störf forstöðumanna auglýst innan skrifstofu forstjóra sem eiga að stuðla að eflingu vísindastarfs þvert á spítalann og leiða aðkomu Landspítala að uppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut, sem er stærsta verkefnið í heilbrigðissögu þjóðarinnar.
Fyrir rétt rúmu ári síðan tók gildi nýtt skipurit Landspítala. Yfirstjórn spítalans var einfölduð, störfum fækkað úr átján í ellefu og ný framkvæmdastjórn hóf störf. Á sama tíma var boðuð umfangsmikil vinna við endurskoðun stjórnskipulags allra klínískra sviða með það að markmiði að efla framlínustjórnun og styrkja starfsemina. Farið var í víðtæka greiningu á stjórnun innan spítalans þar sem mat var lagt á hlutverk, ábyrgð og umfang stjórnunarstarfa, auk stjórnunarspannar í samanburði við önnur sambærileg sjúkrahús. Niðurstaða matsins var ótvíræð. Styrkja þarf stjórnun innan spítalans og stoðþjónusta við klíníska starfsemi er of lítil. Of mikill tími klínísks starfsfólks fer í verkefni sem ekki tengjast meðferð og þjónustu við sjúklinga og stjórnendur eru of fjölbreyttum störfum hlaðnir til að geta skipulagt starfsemina nægilega vel.
Meginmarkmið breytinga á skipuriti klínískra sviða er efling stjórnunar þjónustueininga í framlínu með áherslu á samhæfingu og stöðlun verklags ásamt styrkingu rekstrar. Enn fremur standa vonir til þess að þessar breytingar auki samhæfingu og samvinnu milli starfseininga og verði til þess fallnar að brjóta upp aðskilnað milli stétta og fagsviða. Þessi áfangi er liður í löngu ferli umbóta.
Við breytingarnar hafa öll svið spítalans verið ítarlega yfirfarin. Sviðunum mun fækka um eitt, verkefni munu færast milli sviða og störf lögð niður, þar á meðal eitt starf framkvæmdastjóra og munu framkvæmdastjórar þá vera tíu talsins.
Breytingarnar munu taka gildi 1. apríl nk. og nýtt skipurit spítalans verður með eftirfarandi hætti:
Hvert og eitt svið verður byggt upp með sambærilegum hætti:
Forstöðuhjúkrunarfræðingar og forstöðulæknar munu bera stjórnendaábyrgð á sínum hluta starfseminnar samkvæmt umboði framkvæmdastjóra. Verkefni á þeirra sviði munu meðal annars lúta að samhæfingu og forgangsröðun klínískrar þjónustu, stöðlun á verklagi og þróun þjónustuferla, fjárhagsáætlun, mannauðsmálum og samræmdri launasetningu. Framlínustjórnendur munu eftir sem áður bera faglega ábyrgð á starfseminni.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala:
„Þær breytingar sem nú standa yfir á Landspítala eru þær umfangsmestu sem ráðist hefur verið í um langa hríð og njóta stuðnings bæði stjórnar og fagráðs. Markmiðið er að tryggja framúrskarandi þjónustu við sjúklinga og að við nýtum bæði fjármagn og fólk með sem bestum hætti í þágu starfseminnar. Ég hvet allt áhugasamt starfsfólk spítalans til að veita auglýsingunum athygli og sækja um ef hæfni þeirra og metnaður liggur til að taka þátt í stjórnun spítalans. Það eru spennandi tímar framundan og saman leggjumst við á árarnar til að gera góðan spítala betri og búa hann undir áskoranir framtíðarinnar og fyrirsjáanlegar breytingar á komandi árum.“
Starfsauglýsingarnar eru birtar á vef Landspítala; Laus störf - Landspítali, Starfatorgi og á Alfreð og þar er hægt að kynna sér betur eðli og umfang hvers starfs fyrir sig. Kostnaður við breytingarnar nemur um 250 milljónum króna á ári. Kostnaðarábatinn af skipulagsbreytingum spítalans er þó umtalsverður. Minnkun yfirstjórnar og sameining sviða hafa dregið úr kostnaði. Öflugri stuðningur við framlínu mun einnig hafa í för með sér skilvirkni og hagræðingu. Meginbreytingin endurspeglast þó í bættri þjónustu við sjúklinga, aðstandendur og aðra skjólstæðinga spítalans.