Nýr Landspítali ohf., efndi í maí á þessu ári til samkeppni meðal myndlistarmanna um nýtt listaverk til útfærslu á Sóleyjartorgi, aðalaðkomutorgi meðferðarkjarna sem er stærsta einstaka nýbyggingin í uppbyggingu spítalans við Hringbraut.
Alls barst 51 umsókn um þátttöku og valdi forvalsnefnd sex listamenn/hópa úr innsendum umsóknum til þátttöku í lokuðum hluta samkeppninnar. Þeir listamenn sem valdir voru til þátttöku voru:
- Haraldur Jónsson og Anna María Bogadóttir
- Katrín Sigurðardóttir
- Ólöf Nordal
- Rósa Gísladóttir
- Sigurður Guðjónsson
- Þórdís Erla Zoëga
Listamönnunum var falið að skila inn einni eða tveimur tillögum/útfærslum hverjum. Alls bárust dómnefnd tíu gildar tillögur.
Samhljóma niðurstaða dómnefndar var að velja verkið Upphaf eftir Þórdísi Erlu Zoega sem vinningstillögu.
Í umsögn dómnefndar segir meðal annars:
„Tillagan er skemmtileg og ber með sér næmi fyrir rýminu og starfsemi spítalans. Hringlaga form afmarkar annars vegar tjörn og hins vegar setsvæði til hliðar við aðalinngang byggingarinnar. Litað gler tengir innra og ytra rými og varpar hlýrri birtu um svæðið þannig að frá verkinu stafar jafnt hlýju og ljósi.
Form verksins kallast, á sannfærandi hátt, á við hringlaga stiga sem verður áberandi hluti af anddyrinu. Tillagan rímar vel við efnismeðferð anddyrisbyggingarinnar og byggingarlist meðferðarkjarnans, þar sem gler leikur margþætt hlutverk. Verkið virkjar rýmið og skapar áhugaverðan viðkomustað án þess að yfirtaka torgið.
Setsvæðin gefa fyrirheit um hvíldarstað og skapa viðkomustað fyrir þá sem eiga erindi á sjúkrahúsið. Upphaf verður þannig jákvæður áhrifavaldur þegar horft er til mannlífs í umhverfi spítalans. Vatn leikur stórt hlutverk í þeim hluta verksins sem er utandyra. Birtan af lituðu gleri fellur á vatnið sem jafnframt endurvarpar sólarljósi og gefur frá sér hljóð sem hefur áhrif á upplifun manna af staðnum. Birtan af glerinu hefur jafnframt áhrif á innra setsvæðið en það er hlutlausara og býður upp á frjálslega notkun sem kallar á samveru ólíkra kynslóða.
Höfundur tilgreinir markmið verksins, sem falla á sannfærandi hátt að keppnislýsingu og ber einföld hugmyndin með sér góða formskynjun og einstaklega áhugaverða notkun rýmis. Tillagan er sterk þegar kemur að sjónrænni útfærslu, dregur athygli að aðalinngangi byggingarinnar og hefur þannig burði til að vera kennileiti í umhverfi spítalans. Veður og dagsbirta leika veigamikil hlutverk í upplifun áhorfandans en Upphaf myndar einskonar brennipunkt vatns, forms, lita og ljóss. Tillagan fellur vel að þeirri uppbyggilegu og líknandi starfsemi sem fer fram á sjúkrahúsi. Hugmyndin að verkinu er skýr og einföld þar sem áhorfendur virkja verkið og upplifun þeirra er kjarni þess.
Tvær tillögur hlutu viðurkenningu:
Hjartaþræðing, höfundar: Haraldur Jónsson og Anna María Bogadóttir
Í umsögn dómnefndar segir: Tillagan er einstaklega frumleg og endurspeglar áhugaverða nálgun við list í almannarými. Höfundur nálgast samkeppnissvæðið og allt umhverfið með ríkri tilfinningu fyrir hlutverki spítalans og sögu. Áhugaverð er samlíking milli mannslíkamans og bygginga spítalans. Verkið hefur til að bera margbreytileika sem fangar athygli manna jafnt á afgerandi hátt sem og með smágerðu áreiti. Tillagan tekur mið af byggingunni en dregur jafnframt inn á áhugaverðan hátt eldri byggingu Landspítala, en sá hluti tillögunnar fellur að hluta utan ramma samkeppninnar. Áhugavert er með hvaða hætti tillagan gerir ráð fyrir nýtingu ljóss og hljóðs s.s. í fossi sem streymir á milli hæða og er áberandi við aðalinngang meðferðarkjarnans. Almennt er styrkur tillögunnar lágstemmd inngrip sem auðga upplifun af rýminu. Dómnefnd telur listrænt gildi tillögunnar mikið og að hún sé til þess fallin að marka frumleg spor þegar kemur að myndlist sem áhrifavaldi í manngerðu umhverfi.
Blíðleikur, höfundur: Ólöf Nordal
Í umsögn dómnefndar segir: Tillagan dregur fram sterk hughrif og ber með sér skýr merki um listrænt gildi byggt á þekkingu og innsæi í sagna- og menningararf. Verkið hefur burði til að laða að sér vegfarendur og verða þannig kennileiti og mikilvægur hluti af almannarýminu og Sóleyjartorgi. Verkið er innihaldsríkt og hugvitsamlega útfært þar sem höfundur tengir það á áhugaverðan hátt við trúarbrögð, táknfræði og vangaveltur um mannlega tilvist. Formræn útfærsla er vísvitandi gróf þar sem hún vísar til hins handgerða, en efnisval er hefðbundið og varanlegt sem hæfir verkinu vel. Tillagan er hugmyndalega vel rökstudd og einföld í framkvæmd.
- Sýning verður á innsendum tillögum í sal Sambands íslenskra myndlistarmanna, Hafnarstræti 16, 6.-7.janúar frá kl.13.00-17.00.
- Einnig er hægt að kynna sér tillögurnar á www.nlsh.is,og www.sim.is.
Nánar um samkeppnina:
Áherslur dómnefndar
Verkefni dómnefndar var að meta þær tillögur sem bárust með tilliti til listrænna gæða og hversu vel þær féllu að markmiðum samkeppnislýsingar. Markmið samkeppninnar var að list verði veigamikill og afgerandi hluti bygginga, umhverfis og mannlífis og þannig hluti af uppbyggingu Nýs Landspítala á Hringbrautarsvæðinu. Í samræmi við samkeppnisreglur Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM) voru allar tillögur metnar nafnlaust. Í samkeppnislýsingu var áherslum dómnefndar lýst meðal annars með eftirfarandi hætti:
„Meginmarkmið samkeppninnar er ekki einungis að uppfylla skilyrði laganna sem varða listaverk í eða við nýbyggingar ríkisins heldur einnig að gæða þetta stóra verkefni hugmyndaauðgi og hugviti listamanna sem mun njóta sín sem órjúfanlegur hluti heildarinnar um ókomin ár. Dómnefnd metur tillögur sem berast í samkeppnina með hliðsjón af fyrirliggjandi keppnislýsingu og gögnum sem þar er vísað til.“
Valnefndir
Forvalsnefnd: Sigurður H. Helgason, í stjórn NLSH, formaður forvalsnefndar, Dorothée Kirch, fulltrúi Reykjavíkurborgar, Þóra Þórisdóttir, fulltrúi SÍM
Dómnefnd: Finnur Árnason, formaður stjórnar NLSH og formaður dómnefndar, Ólöf Kristín Sigurðardóttir, fulltrúi Reykjavíkurborgar, Þórunn Steinsdóttir, fulltrúi Landspítala, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, fulltrúi SÍM, Pétur Thomsen, fulltrúi SÍM.
Ritari dómnefndar: Ásdís Ingþórsdóttir, NLSH.
Trúnaðarmaður: Ingibjörg Gunnlaugsdóttir tilnefnd af SÍM,
Ráðgjafar dómnefndar: Ögmundur Skarphéðinsson, arkitekt, Hornsteinar arkitektar, Pétur Jónsson, landslagsarkitekt Efla verkfræðistofa.
Sjá nárnar um samkeppnina á: NLSH.is og www.sim.is.