Í sumar ákvað starfsfólk og skjólstæðingar á Grensási að taka þátt í verkefninu "Sjúkrabílabangsar". Ákveðið var strax í byrjun að setja markið á að afhenda 50 bangsa fyrir áramót, þar sem nú er 50 ára afmælisár Grensáss. Unnið var að verkefninu í iðjuþjálfun og voru margir sem komu að því, gripu í prjóna, tróðu í og saumuðu. Útkoman eru einstaklega skemmtilegir og fjölbreyttir 50 bangsar.
Fulltrúar frá Slökkviliðinu komu og tóku glaðir á móti gjöfinni. Þeir segja þetta skipta miklu máli fyrir þau börn sem þurfa á þjónustu sjúkrabíla að halda, þetta veiti þeim öryggi og huggun.
Þetta var gefandi verkefni fyrir skjólstæðinga Grensáss og starfsfólk. Ánægjulegt hve margir gátu tekið þátt í því.