Hildur hefur tekið við sem kennslustjóri sérnáms í almennum lyflækningum. Hildur útskrifaðist úr Læknadeild HÍ árið 2014 og lauk kandídatsári 2015. Að loknu kandídatsári hóf hún störf sem sérnámslæknir á lyflækningasviði Landspítala og var þar m.a. umsjónardeildarlæknir. Hún hélt áfram í sérnámi í almennum lyflækningum við University of Iowa Hospitals and Clinics sumarið 2018 og kynntist þar starfi “hospitalista” og þannig urðu almennar lyflækningar fyrir valinu sem sérgrein. Hún hóf svo störf sem sérfræðilæknir á Landspítala 2021 og hef starfað náið með sérnámslæknum í lyflækningum síðan og komið að sérnáminu sem klínískur handleiðari og sérnámshandleiðari.
Þá hefur Hildur leikið mikilvægt, faglegt forystuhlutverk við þróun almennra lyflækninga á Landspítala undanfarin ár en almennar lyflækningar gegna í dag burðarhlutverki í veitingu heilbrigðisþjónustu á Landspítala. Hildur hefur tekið þátt í að leiða mikilvæg umbótaverkefni þvert á spítalann, þ.m.t. verkefni í tengslum við lyfjaöryggi, innleiðingu nýrrar útgáfu Therapy og innleiddi vinsæla tifellafundi innan lyflækninga.
Við bjóðum Hildi velkomna til starfa og óskum henni velfarnaðar í starfi.