Alþjóðlegur dagur næringar er haldinn fimmtudaginn 9. nóvember og geta sjúkrastofnanir í tilefni dagsins tekið þátt í eins dags stöðumati á næringarástandi sjúklinga og verkferlum sem tengjast næringu.
- Á Næringarstofu Landspítala starfa um 20 næringarfræðingar í um 15 stöðugildum.
- Næringarfræðingar veita einstaklingsmiða næringarmeðferð til sjúklinga Landspítala, bæði inniliggjandi og á göngudeildum.
- Starfsmenn Næringarstofu vinna í ýmsum þverfaglegum teymum á Landspítala og veita ráðgjöf til heilbrigðisstarfsmanna Landspítala og annarra stofnanna á landinu.
- Næringarstofa er leiðandi í gerð fræðsluefnis og verklags tengt næringarmeðferð sjúklinga á landsvísu.
- Öflugt rannsóknarstarf fer fram á Næringarstofu í samstarfi við Háskóla Íslands og taka næringarfræðingar á Landspítala þátt í kennslu í klínískri næringarfræði við Háskóla Íslands ásamt umsjón með starfsnámi nemenda í klínískri næringarfræði á meistarastigi.
Þann 9. nóvember munu næringarfræðingar Landspítala ásamt nemum í klínískri næringarfræði við Háskóla Íslands meta áhættu á vannæringu hjá öllum inniliggjandi sjúklingum á Landspítala.
- Vannæring meðal inniliggjandi sjúklinga er oft tengd sjúkdómi og/eða meðferð hans.
- Á Landspítala er tíðni vannæringar 20-60%, mismunandi eftir sjúklingahópum.
- Vannæring getur haft í för með sér lengri sjúkrahúslegu og meiri kostnað fyrir heilbrigðiskerfið.
- Markmiðið með alþjóðlegum degi næringar er að vekja athygli á vannæringu á sjúkrastofnunum og mikilvægi þess að meta áhættu á vannæringu hjá inniliggjandi sjúklingum.