Tíu lyfjafræðingar hafa að undanförnu stundað sérnámi í klínískri lyfjafræði og var einn þeirra útskrifaður 20. október 2023 á Landspítala.
Að þessu sinni útskrifaðist Helga Rut Steinsdóttir. Hún hefur nú þegar ráðið sig til starfa á spítalanum og verður á hjartadeild og ráðgefandi í Miðstöð lyfjaupplýsinga og Eitrunarmiðstöð.
Við útskriftina fluttu stutt ávörp þau Freyja Jónsdóttir kennslustjóri, Tómas Þór Ágústsson framkvæmdastjóri lækninga, Einar Stefán Björnsson, forstöðumaður fræðasviðs lyflækninga, Arnþrúður Jónsdóttir deildarstjóri lyfjaþjónustu, Elín I. Jacobsen leiðbeinandi í sérnáminu og Berglind Eva Benediktsdóttir, deildarforseti lyfjafræðideildar Háskóla Íslands.
Markmið meistaranáms í klínískri lyfjafræði er að þjálfa og þróa hæfni lyfjafræðinga í grundvallarþáttum klínískrar lyfjafræði. Náminu er ætlað að stuðla að þeirri hæfni sem þarf til að tryggja örugga, árangursríka og kostnaðarlega hagkvæma notkun lyfja í heilbrigðisþjónustu sem er lykilhlutverk klínískra lyfjafræðinga. Mikil eftirspurn er eftir náminu hjá lyfjafræðingum og á ári hverju sækja fleiri um en komast að. Í ár var ákveðið að fjölga sérnámslyfjafræðingum sem teknir voru inn í námið úr tveimur í fjóra sem endurspeglar einnig þá eftirspurn sem hefur skapast í heilbrigðisþjónustu eftir sérþekkingu klínískra lyfjafræðinga og farsæla þátttöku í þverfaglegri nálgun margra fagstétta innan heilbrigðisþjónustu í meðferð sjúklinga.