Halldóra Kristín Þórarinsdóttir sérfræðilæknir á Barnaspítala Hringsins er handhafi Míuverðlaunanna 2023. Bakvið þessi verðlaun stendur Mia Magic góðgerðarfélagið
Míuverðlaunin eru veitt 14. september ár hvert til að heiðra þá sem koma að þjónustu við langveik börn með einum eða öðrum hætti. Einhver sem hefur hjálpað eða stutt í slíku á erfiðum tíma. Gefinn er kostur á að tilnefna fólk til verðlaunanna. Allir tilefndir fá senda Míunælu í pósti en valnefnd ákveður síðan endanlega hver hlýtur verðlaunin hverju sinni. Við afhendingu verðlaunanna lásu Emmesjé Gauti og dóttir hans upp tilnefningar og umsagnir foreldra.
Verðlaunin voru veitt núna í fjórða skipti og voru 36 heilbrigðisstarfsmenn tilnefndir. Míuverðlaunin hannaði að þessu sinni listakonan Valdís Ólafsdóttir.
Verðlaunahafinn Halldóra Kristín er sérfræðingur í blóð- og krabbameinslækningum á Barnaspítala Hringsins. Hún lauk læknisfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1994 og vann í kjölfarið á ýmsum deildum á Landspítala en hélt síðan til Bandaríkjanna árið 2000 og stundaði nám í almennum barnalækningum til ársins 2003 í Hartford í Connecticut og síðan krabbameins- og blóðsjúkdómalækningum barna í Washington DC milli 2003 og 2006. Síðan hefur Halldóra Kristín starfað á Barnaspítala Hringsins og fjöldi barna notið þess.
Halldóra Kristín er fjórði starfsmaður Barnaspítala Hringsins til að fá Míuverðlaunin. Fyrst var það Sigrún Þóroddsdóttir krabbameinshjúkrunarfræðingur barna árið 2021 og var þá í tilnefningum hlaðin lofi fyrir störf í þágu skjólstæðinga sinna á Barnaspítalanum. Fyrir tveimur árum fékk Gunnlaugur Sigfússon sérfræðilæknir verðlaunin fyrir störf sín í þágu hjartveikra barna. Þeim sinnir hann iðulega nánast fram á fullorðinsaldurinn enda mörg hver með sögu um mjög flókna hjartagalla sem vísa þurfti til aðgerðar erlendis. Tryggvi Helgason barnalæknir fékk svo verðlaunin í fyrra fyrir að stofna Heilsuskólann og hlúa að börnum sem eru í ofþyngd. Þannig hefur mörgum börnum verið hjálpað til að ná tökum á mataræði og bæta hreyfingu.
Myndirnar frá afhendingu Miu verðlaunanna tók Rakel Ósk Sigurðardóttir.