Sérfræðilæknar sem luku heilu sérnámi á árinu 2023 á Landspítala voru heiðraðir af forstjóra Landspítala og yfirlækni sérnáms á málþingi um sérnámslækningar 8. september 2023. Málþingið bar yfirskriftina „Sérnám og hvað svo? Rannsóknir – Stjórnun – Nýsköpun“ og var á vegum skrifstofu sérnáms á Landspítala. Auk þess voru flutt innblásturserindi sem tengdust þeim þremur mismunandi áherslusviðum sem valin voru sem inntak málþingsins.
Farið hefur fram mikil uppbygging í sérnámi í flestum sérgreinum lækninga og umskipti orðið á umhverfi sérnámslækna og samsetningu læknastéttarinnar á Íslandi. Innan Landspítala hefur þessi þróun átt sér stað með samtilltu átaki stjórnenda og brautryðjenda í sérgreinunum. Komið hefur verið á fót gagnsæju og framsýnu regluverki um sérnám í samræmi við alþjóðlega gæðastaðla og í samvinnu við erlenda samstarfsaðila svo sem Royal College í Bretlandi.
Í þessu ferli hafa falist miklar áskoranir en jafnframt umtalsverð sóknarfæri og uppbyggingarmöguleikar til framtíðar m.t.t. þróunar lækninga á Íslandi og þess að tryggja þjónustu við sjúklinga og sjálfbærari mönnun heilbrigðisþjónustunnar. Aukin breidd í læknamönnun á Landspítala og á Íslandi yfirleitt hefur þegar skilað ótvíræðum árangri með bættri læknisþjónustu og auknum umsvifum sem endurspeglast í starfsemistölum Landspítala.
Reglur og viðmið sérnámslækna hafa nú verið formfest enn betur með nýútgefinni reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi.
Mynd: Runólfur Pálsson forstjóri, Elías S. Eyþórsson, Eyrún Baldursdóttir, Rosemary Lea Jones, Páll Guðjónsson, Bára Dís Benediktsdóttir, Erna Hinriksdóttir, Hermann Páll Jónsson, Vilhjálmur Steingrímsson, Tómas Þór Ágústsson framkvæmdastjóri lækninga, Inga Sif Ólafsdóttir yfirlæknir sérnámsgrunns og Gunnar Thorarensen, yfirlæknir skrifstofu sérnáms. Á myndina vantar: Móses Pálsson, Telmu Huld Ragnarsdóttur, Kristinn Þorbergsson og Gerði Leifsdóttur.