Hringurinn hefur fært Landspítala að gjöf laser-tæki til að meðhöndla valbrá hjá börnum. Slíkt tæki hefur ekki verið til hér á landi og því hefur þurft að senda börn til útlanda í meðferð vegna valbrár. Ör og önnur lýti, sérstaklega í andliti, geta haft mikil áhrif á þroska og heilbrigði barna.
Valbrá er missmíð háræða og einkennist af einni eða fleiri rauðum eða bleikum góðkynja skemmdum á húð heilbrigðra nýbura sem geta verið mikið lýti. Blettirnir geta verið hvar sem er á líkamanum og eru til staðar út lífið. Í allt að 90 prósentum tilfella eru blettirnir á höfuð- og hálssvæði.
Valbrá er einn algengasti æðagallinn, 0,3 til 0,5 prósent barna fæðast með slíka bletti. Þeir stækka hlutfallslega meira en barnið og verða með aldrinum dekkri og fjólubláir að lit.
Hægt er að meðhöndla valbrá með góðum árangri með laser. PDL-tækni (pulsed-dye-laser) þykir best til að meðhöndla æðamissmíðar og virkar mun betur á ungbarnaskeiði en síðar á æfinni. Aðferðin felst í því að laser-orkan er tekin upp af rauðum blóðkornum, þar breytist hún í hita sem dreifist til þekju háræðanna og veldur þannig skemmd í æðunum sem lokast. Oft þarf að endurtaka meðferðina átta til tíu sinnum, jafnan á fjögurra til tólf vikna fresti. Þetta er sársaukafull meðferð og á ungum börnum aðeins möguleg í svæfingu.
Þar sem Landspítali hefur ekki átt laser-tæki til að meðhöndla valbrá hafa börn verið send til annarra landa til slíks sem hefur bæði verið íþyngjandi og kostnaðarsamt enda í mörgum tilfellum nauðsynlegt að fara í átta til tíu utanlandsferðir með tilheyrandi fjarveru foreldranna frá vinnu og heimili. Nú verða þessar ferðir óþarfar því laser-meðferðin verður á Landspítala.
PDL-tæknin gagnast ekki aðeins við meðferð valbrár heldur einnig snemma í ferli barna sem verða fyrir bruna til að draga verulega úr örmyndunum og lýti.
Laser tækið sem Hringurinn gaf Landspítali í tilefni af 20 ára afmæli Barnaspítala Hringsins kostaði um 20 milljónir króna. Það var formlega afhent spítalanum 16. ágúst 2023 þar sem Hringskonum voru færðar þakkir fyrir ómetanlegan stuðning í þágu barna í landinu nú sem fyrr.