Farsóttanefnd Landspítala hefur lokið við seinni skýrslu sína um viðbrögð spítalans við heimsfaraldri COVID-19.
Í fyrri skýrslu sinni um COVID-19, sem farsóttanefnd gaf út í febrúar 2023, var tekist á við tímabilið frá þeim degi er nefndin hóf formlegan undirbúning fyrir faraldurinn í janúar 2020 og til þess dags er þriðja bylgja faraldursins skall á samfélaginu og þar með Landspítala í kringum 20. september 2020.
Í seinni skýrslunni, sem gefin er út 30. júní 2023, er í fyrri hluta áfram fjallað um 3. og 4. bylgju faraldursins og í seinni hluta um viðbrögð og lærdóm fjölmargra starfseininga á spítalanum vegna COVID-19, um aðstöðu, húsnæði, mönnun og sýkingavarnir svo nokkuð sé nefnt.
Í stuttri samantekt um skýrslurnar tvær gerir Hildur Helgadóttir formaður farsóttanefndar grein fyrir efnistökum í báðum skýrslunum. Það kemur því að gagni að lesa samantektina á undan skýrslunum sjálfum til að átta sig sem best á uppbyggingu þeirra. Báðar eru skýrslurnar mjög yfirgripsmiklar og ítarlegar en vel kaflaskiptar og því skilmerkilegar.
Hér fyrir neðan eru hlekkir á báðar skýrslur farsóttanefndar Landspítala um COVID-19.
- Faraldur SARS-CoV-2 á Íslandi - útgefin 10. febrúar 2023
- Faraldur SARS-CoV-2 á Íslandi - útgefin 30. júní 2023