Niðurstöður algengustu blóðprufurannsókna á Landspítala eru frá og með 13. júní 2023 aðgengilegar með tveggja virkra sólarhringa seinkun í nýjustu útgáfu af Landspítalaappinu.
Þetta er mikilvægur áfangi í þróun á Landspítalaappinu, smáforriti fyrir sjúklinga á Landspítala sem teymi stafrænnar þróunar spítalans er í forsvari fyrir.
Landspítalaappið er aðgengilegt þeim sem hafa rafræn skilríki undir „Landspítali“ á Google Play eða Apple Store. Markmið smáforritsins er að gefa sjúklingum betri innsýn í meðferð sína með miðlun upplýsinga og þar með auka eigin þátttöku í henni.
Í appinu getur sjúklingur séð tímabókanir sínar, blóðrannsóknarniðurstöður, stöðu rannsóknarniðurstaðna, lyfjaupplýsingar, aðgerðaupplýsingar í rauntíma og hann getur veitt öðrum umboð til að sjá gögnin í því. Foreldrar og forráðamenn geta líka skráð sig sem umboðsaðili í appinu fyrir börn sín upp að 16 ára aldri.
ATH! Blóðrannsóknarniðurstöður fengnar fyrir 13. júní 2023 eru enn sem komið ekki aðgengilegar.
Í myndskeiðinu er fjallað um blóðrannsóknarniðurstöður í Landspítalaappinu.
Viðmælendur:
Arnar Þór Guðjónsson, yfirlæknir á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala
Erna Milunka Kojic, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga Landspítala
Tómas Þór Ágústsson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala