Landspítali tók í maí 2023 á móti hópi frá háskólasjúkrahúsinu í Olomouc í Tékklandi sem var hér til að kynna sér hvernig spítalinn stendur að verkefnum sem tengjast fjarheilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Í tékkneska hópnum voru stjórnendur og verkefnastjórar í upplýsingatæknimálum við alþjóðlega „telemedicine“ miðstöð sem nýlega var sett á laggirnar í Tékklandi. Miðstöðin sér um verkefni sem snúa meðal annars að EHR (e–health records) og þróun á stafrænum lausnum í heilbrigðisgeiranum (digital health solutions).
Dagskrá vegna heimsóknarinnar var fjölbreytt og stóð yfir í fimm daga. Læknar, hjúkrunarfræðingar, starfsmenn heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar (HUT) svo og fólk utan spítalans sem tengist fjarheilbrigðisþjónustu var með fjölbreyttar kynningar. Hópurinn fékk til dæmis góða yfirsýn yfir verkefni frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Embætti landlæknis, heilbrigðisráðuneytinu, Öryggismiðstöðinni, Dignio í Noregi og Sidekick Health.
Páll Matthíasson, geðlæknir og fyrrverandi forstjóri Landspítala, Davíð Ottó Arnar, yfirlæknir á hjartadeild, Hermann Páll Jónsson geðlæknir, Rafn Benediktsson, yfirlæknir innkirtla- og efnaskiptasjúkdómalækninga, og Halldóra Hálfdánardóttir, deildarstjóri HERU heimahjúkrunar, voru með kynningar vegna verkefna og framtíðarhugmynda um fjarheilbrigðisþjónustu. Sigurður Þórarinsson, Adeline Tracz, Hanna Kristin Guðjónsdóttir og Kristján Sturlaugsson á HUT tóku á móti hópnum og kynntu áherslur í verkefnum. Fyrir hönd þróunarsviðs hélt Signý Jóna Hreinsdóttir verkefnastjóri utan um dagskrána og hópinn.