Minningargjafasjóður Landspítala Íslands veitti fjóra verðlaunastyrki á Vísindum á vordögum þann 26. apríl 2023 að heildarupphæð 7,5 milljóna króna.
Minningargjafasjóður Landspítala Íslands var stofnaður árið 1916 og er tilgangur sjóðsins að stuðla að bættri meðferð sjúklinga m.a. með styrkveitingum til þeirra eða aðstandenda þeirra og til tækjakaupa fyrir sjúkrahús og/eða til valinna verkefna á vegum Landspítala. Þorbjörg Guðnadóttir, fulltrúi stjórnar Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands, afhenti styrkina og tveir styrkþegar fengu þann heiður að flytja kynningu á rannsóknarverkefni sínu.
Jóna Freysdóttir, náttúrufræðingur og prófessor: Styrkur til framhaldsrannsóknar á verkefninu „Sérhæfing bólguhjöðnunarsviðgerðar og hlutverks NK frumna.“
Að umsókninni standa Jóna Freysdóttir og Ingibjörg Harðardóttir en þær eru báðar starfandi við ónæmisfræðideild Landspítala og prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands. Auk þeirra koma að verkefninu nemarnir Jessica Lynn Webb (verkefnið er hluti af meistaraverkefni hennar), Kirstine Nolling Jensen doktorsnemi, Ívan Árni Róbertsson læknanemi og Kirsten Proost, skiptinemi frá Belgíu.
Verkefnið er hluti af stærra verkefni sem miðar að því að efla bólguhjöðnun en bólguhjöðnun er virkt ferli sem kemur í veg fyrir að bráðabólga verði langvinn. Langvinn bólga er aukin í mörgum algengum sjúkdómum, s.s. í sjálfsónæmi, krabbameini og hjartasjúkdómum. Í rannsóknarverkefninu er skoðað hvaða frumur taka þátt í bólguhjöðnun og hvernig hægt er að hafa áhrif á bólguhjöðnun. Niðurstöður rannsóknanna hafa m.a. sýnt að náttúrulegar drápsfrumur (NK frumur) eru nauðsynlegar fyrir hjöðnun mótefnavakamiðlaðrar kviðarholsbólgu í músum og að ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur efla bólguhjöðnun.
Í verkefninu er verið að rannsaka hvernig hægt er að hafa áhrif á NK frumur í rækt til að efla bólguhjöðnunarvirkni þeirra. NK frumur úr mönnum voru ræstar með blöndu af sameindum sem vitað er að efla bólguhjöðnun og/eða draga úr bólgu (RES-sameindum) og til samanburðar með blöndu af sameindum sem hvetja til myndunar bólgu (INF-sameindum). Niðurstöðurnar hafa sýnt að NK frumur meðhöndlaðar með RES-sameindum seyta minna af bólguhvetjandi boðefnunum IFNγ og GM-CSF en mynda meira af bólguhjöðnunarsameindunum LXA4 og Annexin A1. Niðurstöðurnar benda til þess að ræktun NK frumna með RES-sameindum breytti svipgerð þeirra í átt að bólguhjöðnunarsvipgerð
Næstu skref í verkefninu eru að þróa áfram RES-sameindablönduna svo hún stuðli enn betur að bólguhjöðnunarsvipgerð NK frumna sem og að ákvarða heildaráhrif blöndunnar á virkni og efnaskipti NK frumna. Verkefnið mun auka þekkingu á bólguhjöðnunarvirkni NK frumna og getur hugsanlega hjálpað til við þróun á NK frumu-miðlaðri meðferð við bólgusjúkdómum.
Oddur Ingimarsson, sérfræðilæknir og lektor - Styrkur til framhaldsrannsóknar á verkefninu „Geðrof og maníur hjá einstaklingum á ADHD lyfjum á Íslandi“.
Oddur Ingimarsson er sérfræðingur í geðlækningum og starfar á Laugarásnum meðferðargeðdeild en sú deild sinnir ungu fólki með geðrofssjúkdóm á byrjunarstigi. Oddur lauk embættisprófi í læknisfræði árið 2005 og MS prófi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árið 2008. Hann lauk sérnámi í geðlækningum á Landspítala árið 2015 og doktorsprófi í líf- og læknavísindum frá læknadeild Háskóla Íslands árið 2018. Oddur hefur verið lektor við læknadeild HÍ frá 2021.
Auk Odds eru í rannsóknarhópnum Engilbert Sigurðsson, yfirlæknir og prófessor í geðlækningum við læknadeild Háskóla Íslands, Halldóra Jónsdóttir yfirlæknir og lektor við læknadeild Háskóla Íslands, Þorsteinn Ívar Albertsson og Ragna Kristín Guðbrandsdóttir, læknanemar við læknadeild Háskóla Íslands. Ragna átti hugmyndina að rannsóknarverkefninu og hefur leitt rannsóknarvinnuna en verkefnið er hluti af meistaranámi hennar í líf- og læknavísindum við HÍ.
Lyfjameðferð með lyfjum úr flokki örvandi lyfja (ATC flokkur N06BA) er talin áhrifaríkasta meðferðin við athyglisbresti með ofvirkni (ADHD). Gríðarleg aukning hefur verið í ávísunum á örvandi lyfjum til meðhöndlunar á ADHD hér á landi á síðustu árum, bæði meðal fullorðinna og barna, og jukust ávísanir um 121% frá 2010 og 2020. Sker Ísland sig nú mjög úr í algengi ávísana slíkra lyfja í samanburði við önnur norræn lönd. Lyf sem innihalda virka efnið metýlfenidat eru algengustu örvandi lyfin sem ávísað er hér á landi við ADHD hjá fullorðnum en undir þann flokk heyra meðal annars sérlyfin Concerta og Ritalín. Geðrof og maníur eru sjaldgæfar en alvarlegar aukaverkanir ADHD lyfja en fáar rannsóknir hafa kortlagt tíðni þessara aukaverkana hjá fullorðnum.
Markmið rannsóknarinnar er að kortleggja hvernig og hvort tíðni geðrofs og maníu meðal fullorðinna einstaklinga sem fá ávísað ADHD lyfjum á Íslandi hefur þróast samhliða aukinni notkun lyfjanna ásamt því að skoða hvort áhættan á geðrofi og maníu tengist skammtastærð, tímalengd meðferðar eða tegund ADHD lyfs sem ávísað var. Einnig verður leitast við að kanna hvort áhættan á geðrofi eða maníu aukist í kjölfar ADHD lyfjameðferðar samanborið við áður en meðferð hófst og hvort þeir sem fara í geðrof eða maníu í rannsóknarúrtakinu fái örvandi lyfjum ávísað aftur síðar.
Rannsóknin er afturskyggn lýðgrunduð rannsókn á geðrofum og maníum í kjölfar ADHD lyfjanotkunar hjá einstaklingum 18 ára og eldri á Íslandi frá 2010 til 2022. Rannsóknarúrtakið samanstendur af þeim sem hófu meðferð með ADHD lyfjum á rannsóknartímabilinu og lögðust inn á geðdeild Landspítala eða Sjúkrahússins á Akureyri vegna geðrofs eða maníu innan árs frá upphafi meðferðar með ADHD lyfi. Einstaklingarnar í rannsóknarúrtakinu voru fundnir með samkeyrslu lyfjagagnagrunns og vistunargrunns Embættis landlæknis. Öðrum upplýsingum um einstaklingana í úrtakinu var safnað í sjúkraskrá svo sem um fyrri geðgreiningar og vímuefnanotkun.
Upplýsingar um geðrof og maníur, sjaldgæfar en alvarlegar aukaverkanir af örvandi ADHD lyfjum, er mikilvægt að meta kerfisbundið til að hægt sé að leggja mat á hverjir eru í sérstakri áhættu á að fá slíkar aukaverkanir og hvernig áhættan tengist einstökum ADHD lyfjum, skömmtum og tímalengd meðferðar. Sérstaða rannsóknarinnar og vísindalegt gildi hennar felst helst í því að í henni verða skoðuð gögn um geðrof og maníur í kjölfar ADHD lyfjanotkunar hjá fullorðnum fyrir heila þjóð yfir tólf ára tímabil.
Hans Tómas Björnsson, yfirlæknir og prófessor - Styrkur til verkefnisins „Elucidation of transcriptional regulators of the mild hypothermia response“.
Í þessu verkefni ætla Hans Tómas og Kijin Jang doktorsnemi að kortleggja frekar þá umritunarþætti sem stjórna kæliviðbragði mannafruma og fylgja eftir framsýnni stökkbreytiskimun sem leiddi í ljós töluverðan fjölda af mögulegum stýriþáttum á þessum ferli. Þess er vænst að með frekari skilningi á kæliferli mannafruma verði hægt að þróa taugaverndandi meðferðir til að gefa eftir meiri háttar áföll eins og súrefnisskort við fæðingu. Tólf manna hópur Hans Tómasar er til húsa á Sturlugötu 8 og vinnur að dýpri skilningi á sjúkdómum sem trufla utangenaerfðir og meðferðarþróun fyrir taugasjúkdóma.
Hrafnhildur Eymundsdóttir lýðheilsufræðingur - Styrkur til verkefnisins „Fjölþátta heilsuefling til einstaklinga (60+)sem eru arfhreinir með tilliti til apolipopróteins (APoE) ε4/4“.
Hrafnhildur er verkefnastjóri við Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðium(RHLÖ) og starfar við öldrunarlækningadeild Landspítala. Hrafnhildur er með meistaragráðu í lýðheilsuvísindum og útskrifaðist með doktorsgráðu frá matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands árið 2020. Í kjölfarið fékk hún stöðu nýdoktors við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.
Í rannsóknarhópnum er hópur vísindafólks frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík ásamt klínískum starfsmönnum við Landspítala sem gefa verkefninu nauðsynlega þverfaglega sýn. Auk Hrafnhildar eru í rannsóknarhópnum Milan Chang, rannsakandi við RHLÖ, Alfons Ramel, prófessor við matvæla- og næringarfræðideild, Bergþóra Baldursdóttir, verkefnastjóri byltuvarna við Landspítala, Jón Snædal, yfirlæknir við öldrunarlækningardeild Landspítala, María K. Jónsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík og Steinunn Þórðardóttir, yfirlæknir heilabilunareiningar við Landspítala.
Rannsóknir á meðal einstaklinga sem eru með hreina arfgerð apolipoproteins E (APoE) ε4/ε4 hafa leitt í ljós aukna hættu á heilabilun á meðal hópsins. Erlendar rannsóknir hafa jafnframt gefið til kynna að hægt sé að sporna við þessari auknu áhættu með ákveðnum lífstílsbreytingum. Markmið þessarar rannsóknar er að draga úr líkum á vitrænni skerðingu og heilabilun með markvissri fjölþátta íhlutun á meðal einstaklinga sem eru APoE ε4 arfhreinir.
Rannsóknin verður slembiröðuð með íhlutun (e. randomized controlled trial) til 12. mánaða og er ætlunin að kanna fýsileika og áhrif fjölþátta heilsueflingar sem byggist upp á líkamsþjálfun, hugrænni þjálfun og fræðslu um heilbrigðan lífstíl á efri árum á meðal einstaklinga með ApoE ε4/ε4. Íhlutun mun því byggjast upp á fjölþátta nálgun í þremur hópum arfhreinna einstaklinga: 1) líkamsþjálfun 2) hugræn þjálfun 3) líkamsþjálfun og hugræn þjálfun. Til viðbótar verða tveir viðmiðunarhópar: 1) fræðsluhópur um heilbrigðan lífstíl á meðal einstaklinga með hreina arfgerð 2) fræðsluhópur um heilbrigðan lífstíl á meðal arfblendna einstaklinga.
Rannsókn þessi mun hafa það að aðalmarkmiði að kanna hvort þessar þrjár mismunandi nálganir hafi jákvæð áhrif á vitræna getu og dragi þannig úr líkum á vitrænni skerðingu og heilabilun. Þar sem gagnasöfnun verður yfirgripsmikil mun jafnframt gefast tækifæri til að rannsaka aðrar mikilvægar útkomur svo sem líkamlega færni, vöðvamassa, andlega líðan og lífsgæði.