Tvö bestu veggspjöld vísindaverkefna á uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala, Vísindum á vordögum, í Hringsal 26. apríl 2023, voru verðlaunuð sérstaklega. Höfundar verðlaunaágripanna eru Þórður Björgvin Þórðarson læknanemi og Kirstine Nolling Jensen PhD nemi.
Verðlaunin fyrir veggspjöldin eru styrkur í formi endurgreiðslu á kostnaði vegna kynningar/ferða á verkefnum sínum, allt að 150.000 krónur. Fundarstjóri kynnti verðlaunahafana og kynntu þeir veggspjöld sín fyrir gestum og gangandi á veggspjaldasýningunni á Vísindum á vordögum 2023 í kjölfarið og tóku við verðlaunaskjölum.
Verðlaunaveggspjöldin voru valin úr 29 innsendum veggspjöldum vísindarannsókna árið 2023. Vísindaráð Landspítala hafði veg og vanda af mati ágripa sem bárust og að velja verðlaunahafana.
Þórður Björgvin Þórðarson - Árangur meðferðar og afdrif minnstu fyrirburanna á Íslandi 1990-2019
Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna lifun, árangur meðferðar og langtímahorfur minnstu fyrirburanna hér á landi sl. 30 ár (1990-2019). Þýðið eru allir þeir fyrirburar sem fæddust eftir < 28 vikna meðgöngu og/eða voru ≤ 1000 g við fæðingu, alls 508 börn. Lifunin jókst markvert úr 75% fyrstu 10 árin í 95% þau 10 síðustu. 29% barnanna fengu heilablæðingu og 39% langvinnan lungnasjúkdóm, sem var skilgreindur sem þörf fyrir súrefnismeðferð við 36 vikna meðgöngualdur. Af þeim börnum sem útskrifuðust lifandi greindust 18% seinna með fötlun (CP-heilalömun, þroskaskerðingu og/eða einhverfu). Ekki varð marktæk breyting á nýgengi fötlunar á tímabilinu. Af þeim sem greindust með fötlun voru 72% með CP-heilalömun, 41% með þroskahömlun og 32% með einhverfu en sum barnanna voru með fleiri en eina tegund fötlunar. Þannig sýnir rannsóknin fram á bættar lífslíkur minnstu fyrirburanna undanfarna þrjá áratugi og ánægjulegt er að nýgengi fötlunar meðal þeirra hefur hins vegar ekki aukist. Sjúkdómsbyrði minnstu fyrirburanna er enn mikil og því er hugsanlegt að frekari framfarir í nýburagjörgæslu geti bætt langtímahorfur þeirra.
Í rannsóknarteyminu eru Þórður Björgvin Þórðarson læknanemi við HÍ, Snorri F. Donaldsson og Kristín Leifsdóttir nýburalæknar á vökudeild Barnaspítala Hringsins, Þórður Þórkelsson yfirlæknir vökudeildar, Solveig Sigurðardóttir barnalæknir og sérfræðingur í fötlunum barna við Ráðgjafar- og greiningarstöð og Olga Sigurðardóttir, sérnámslæknir í barnalækningum við Astrid barnaspítalann í Stokkhólmi.
Kirstine Nolling Jensen - Dietary fish oil enhances early hallmarks of inflammation resolution in antigen-induced peritonitis
Kirstine Nolling Jensen er doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands og hefur unnið að verkefni sínu á ónæmisfræðideild Landspítala undir handleiðslu prófessoranna Jónu Freysdóttur og Ingibjargar Harðardóttur. Kirstine hefur frá upphafi vísindaferils síns haft áhuga á hvaða sameindalíffræðilegu ferli drífa langvarandi bólgu- og sjálfsónæmissvör í sjúkdómum. Hún lauk meistaraprófi frá Háskóla Suður Danmerkur í Óðinsvéum þar sem hún rannsakaði verndandi hlutverk CD11c+ örtróðsfrumna (microglia) í músalíkani af heila- og mænusiggi undir leiðsögn prófessors Trevor Owens. Í doktorsverkefni sínu rannsakaði hún síðan áhrif ómega-3 fjölómettaðra fitusýra á bólguhjöðnun og hlutverk náttúrlegra drápsfrumna í bólguhjöðnun. Í verkefninu vann hún með vakamiðlaða bólgu í músum sem módel fyrir sjúkdómskast í sjálfsónæmissjúkdómum og einnig með náttúrulegar drápsfrumur í rækt.
Helstu niðurstöður hennar sýna að fiskolía í fæði eykur mörg af kennimerkjum bólguhjöðnunar m.a. stýrðan frumudauða daufkyrninga, át þeirra og færslu í eitla. Auk þess sýndu þær að ómega-3 fitusýran dókósahexaen sýra (DHA) hefur áhrif á hvernig náttúrulegar drápsfrumur eiga samskipti við daufkyrninga í rækt. Að lokum sýndu niðurstöðurnar að náttúrulegar drápsfrumur tjá lípoxýgenasa og geta myndað lípíðafleidd bólguhjöðnunarboðefni sem hvetja til bólguhjöðnunar. Niðurstöðurnar eru sýndar á veggspjaldinu „Fiskolía í fæði músa eykur snemmbær kennimerki bólguhjöðnunar í vakamiðlaðri bólgu“. Niðurstöðurnar verða birtar í þremur vísindagreinum þar sem Kirstine er fyrsti höfundur. Auk þeirra er Kirstine meðhöfundur að fimm vísindagreinum.
Á námstíma sínum hefur Kirstine leiðbeint fjölda meistaranema ásamt leiðbeinendum sínum. Hún hefur einnig séð um þjónustu við frumuflæðisjár- og frumueinangrunarkjarna Lífvísindaseturs. Þá aðstoðaði hún við þjónusturannsóknir á ónæmisfrumum og hlutverki þeirra á ónæmisfræðideild Landspítala meðan Covid-19 heimsfaraldurinn gekk yfir.