Ingibjörg Gunnarsdóttir næringarfræðingur er heiðursvísindamaður Landspítala 2023 fyrir framúrskarandi framlag til vísinda á ferli sínum. Hún er deildarstjóri næringarstofu Landspítala og prófessor við næringarfræði í Háskóla Íslands.
Ingibjörg Gunnarsdóttir lauk BS-prófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands 1997 og sama ár hóf hún meistaranám í næringarfræði. Hún sótti námskeið í meistaranámi sínu í Kaupmannahöfn en vann meistaraverkefnið á lungnadeild Landspítala sem þá var á Vífilsstöðum. Hún lauk meistaragráðu í næringarfræði árið 1999 og doktorsgráðu frá Háskóla Íslands haustið 2003.
Ingibjörg hefur verið deildarstjóri næringarstofu Landspítala frá árinu 2013 og veitt Rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands forstöðu. Hún er jafnframt prófessor í næringarfræði við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.
Ingibjörg Gunnarsdóttir hefur komið að fjölbreyttum rannsóknum á sviði næringarfræði síðastliðin 25 ár í samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknarhópa. Hún hefur síðastliðin 10 ár fyrst og fremst helgað sig rannsóknum á næringarástandi viðkvæmra hópa með megináherslu á barnshafandi konur.
Ingibjörg hefur hlotið bæði innlenda og erlenda rannsóknarstyrki, er virk í alþjóðlegu samstarfi og höfundur yfir 100 vísindagreina sem birtar hafa verið í alþjóðlegum vísindatímaritum sem gera strangar fræðilegar kröfur. Hún hefur lagt sig fram um að kynna rannsóknarniðurstöður sínar á fjölbreyttum vettvangi og stuðlað þannig að hagnýtingu rannsókna í klínísku starfi. Má þar nefna innleiðingu á skimun fæðuvals í upphafi meðgöngu sem hafin er í meðgönguvernd hérlendis.
Ingibjörg hefur leiðbeint fjölda meistara- og doktorsnemenda og tekist að laða hluta þeirra í störf á næringarstofu Landspítala undanfarin ár og stuðlað þannig að endurnýjun starfsstéttarinnar og eflingu vísindamenningar á Landspítala.
Ingibjörg Gunnarsdóttir er fædd árið 1974. Hún er gift Ólafi Heimi Guðmundssyni og saman eiga þau þrjá drengi, Elías Rafn (f. 2000), Gunnar Heimi (f. 2002) og Björgvin Inga (f. 2004).