Á Landspítala er stöðugt unnið að því að starfsumhverfi sé eins vist- og heilsuvænt og kostur er bæði fyrir sjúklinga og starfsmenn. Hér eru talin upp nokkur atriði sem varða umbætur af því tagi í samgöngumálum starfsmanna.
Rafhjólalán. Á árinu 2022 var nokkurra mánaða tilraunaverkefni um að lána hópi starfsmanna rafhjól til prufa í einn mánuð. Mjög vel tókst til, því verður þess vegna haldið áfram og rafhjól lánuð til starfsmanna í sumar.
Strætó. Starfsfólk Landspítala fær mjög ríflegan afslátt af árskortum hjá Strætó til að ferðast vistvænt til og frá vinnu. Þannig hefur fjölgað umtalsvert þeim starfsmönnum sem nota þennan samgöngumáta reglulega.
Samgöngusamningur. Starfsfólk Landspítala getur gert tvenns konar samgöngusamning, þ.e. að ferðir til og frá vinnu séu annað hvort 40% eða 80% með vistvænum hætti. Ef 80 prósentin eru valin fæst viðbótarumbun í formi 5 þúsund króna skattfrjálsra mánaðarlegra greiðslna.
Hjóla- og búningsaðstaða. Landspítali hefur sett sér háleit markmið um hlutfallslegan fjölda hjólastæða miðað við fjölda starfsmanna. Stöðugt fjölgar hjólaskýlum við starfsstöðvar Landspítala þar sem hægt er að geyma reiðhjólin á öruggum stað. Nýjasta hjólskýlið er milli Eirbergs og geðdeildahússins við Hringbraut, það er fyrir 75 reiðhjól.
Rafskútur og rafhjól. Hægt er að fá til láns rafskútur eða rafhjól á nokkrum starfsstöðvum Landspítala til vinnuferða.