Stýrihópur um verkefni NLSH ohf., þ.e. Hringbrautarverkefnið, kynnti sér starfsemi og skoðaði húsakynni á Landspítala Hringbraut í heimsókn 6. mars 2023.
Ríkisstjórn Íslands samþykkti árið 2019 að skipa stýrihóp til að annast umsjón og samþættingu allra þátta skipulags framkvæmda við Landspítala. Hópnum var ætlað að hafa yfirsýn yfir öll verkefni NLSH ohf. (Nýs Landspítala), staðfesta áætlanir og tryggja að verkefnið myndi lúta áherslu stjórnvalda varðandi hlutverk Landspítala, áætlun um verkefni hans og rekstur. Jafnframt að móta stefnu, annast yfirstjórn og samhæfingu allra þátta verkefnisins. Nánar hér
Stýrihópinn skipa nú:
Ásgeir Margeirsson, formaður
Ásta Valdimarsdóttir, heilbrigðisráðuneytinu
Guðmundur Árnason, fjármála- og efnahagsráðuneytinu
Runólfur Pálsson, Landspítala
Gunnar Guðni Tómasson, Landsvirkjun
Þetta stýrihópsfólk, ásamt Steinunni Sigvaldadóttur úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu, fór víða og skoðaði húsakynnin og fræddist um starfsemina í heimsókn sinni á Landspítala Hringbraut, undir handleiðslu forstjóra spítalans og fleiri stjórnenda. Hópurinn fór í göngudeildarhúsið við Eiríksgötu, eldhússbygginguna, K-bygginguna þar sem krabbameinsþjónustan er, á göngudeild þvagfærarannsókna, speglunardeild, skurðstofur, gjörgæslu og vöknun, í húsnæði hjartaþræðingar, á eina af legudeildunum, í hús kvennadeildanna og á Barnaspítala Hringsins.
Þorkell Þorkelsson ljósmyndari spítalans tók meðfylgjandi myndir á nokkrum stöðum í heimsókn stýrihópsins á Landspítala Hringbraut. Hópurinn ætlar svo fljótlega að kynna sér á sama hátt starfsemina í Fossvogi.