Fulltrúar frá geðþjónustu Landspítala bæði leiðbeindu og voru meðal 18 þátttakenda á jafningjanámskeiði sem haldið var 22. til 28. febrúar 2023.
Geðhjálp og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið úthlutuðu haustið 2022 styrkjum til að stuðla að framförum í geðheilbrigðisþjónustu þar sem fjögur atriði voru höfð að leiðarljósi; valdefling notenda, valdefling aðstandenda, mannréttindi og jafnrétti og í fjórða lagi nýsköpun. Félagasamtökin Traustur Kjarni fengu þar styrk til að vera með þjálfun í jafningastuðningi hér á landi. Jafniningjastuðningur er ákveðin aðgerð eða tækni sem gengur meðal annars út á að fólk sem hefur til þess verið þjálfað geti bæði nýtt þá þjálfun og jafnframt reynslu sína af geðrænum áskorunum til þess að vera til staðar fyrir þá sem leita eftir jafningjastuðningi.
Námskeiðið sem nú var haldið var skipulagt af Traustum Kjarna með erlendri forskrift frá „Intentional Peer Support“ (IPS) þar sem iðkendur læra að nota sambönd til að sjá hlutina frá nýjum sjónarhornum og prófa nýjar aðferðir í samskiptum. Nína Eck jafningi á geðþjónustu Landspítala og meistaranemi í félagsráðgjöf var þjálfari á námskeiðinu og þátt tóku einnig frá geðþjónustunni þau Hallgrímur Hrafnsson, jafningi hjá samfélagsgeðteyminu, Elín Pálsdóttir, jafningi á geðendurhæfingu og Ragna Hreinsdóttir, jafningi á móttökugeðdeild 33C.
Þetta námskeið auk þeirra námskeiða sem hafa verið skipulögð eru samstarfsverkefni Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsæðisins og grasrótarsamtaka. Á námskeiðinu nú voru meðal annars fulltrúar frá Batahúsinu, starfsfólk Hlutverkaseturs, starfsfólk Heilsugæslu, erlendir notendastarfsmenn og aðrir sem hafa engin tengsl við heilbrigðiskerfið. Næsta námskeið verður í lok apríl, eftir ráðstefnu Geðhjálpar sem verður haldin í samvinnu við „Intentional Peer Support“.
Myndin var trekin af útskrifuðum nemum jafningjanámskeiðsins.