Speglunardeild Landspítala var 13. desember 2022 formlega afhent gervigreindartæki ætlað til notkunar í sambandi við ristilspeglun. Tækið heitir GI Genius™ Intelligent Endoscopy Module. Gjöfin kemur frá Kaupmannasamtökum Íslands i góðri samvinnu við Bláa naglann.
Tækið virkar þannig að það skoðar speglunarmyndina sem speglunarlæknirinn sér á sama tíma og rannsóknin fer fram. Þegar tækið nemur svæði sem gæti verið sepi lætur það lækninn vita af því með því að láta ferning birtast á því svæði myndarinnar. Tækið vekur þannig athygli á svæðum í ristlinum sem þarf að skoða betur. Læknirinn þarf áfram að treysta á sína þjálfun og þekkingu við að meta hvaða breytingar þarf að fjarlægja eða taka sýni af.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að almennt finnist fleiri litlir separ þegar GI-Genius tækið er til aðstoðar. Fjöldi stærri sepa er hins vegar svipaður hvort sem GI-Genius er notað eða ekki við ristilspeglanir.
„Við erum afar þakklát Kaupmannasamtökum Íslands fyrir þessa rausnarlegu gjöf en mikill áhugi er á þessari tækni og þeim möguleikum sem í henni felast við speglanir í greiningar og eftirlitsskyni,“ segir Magnús Konráðsson yfirlæknir speglunardeildar.
Hvaða gagn gerir tækið á speglunardeild Landspítala?
1. Tækið verður notað við margar ristilspeglanir á Landspítala og mun auka líkur á því að fleiri separ finnist og verði teknir til athugunar.
2. Landspítali gegnir hlutverki við þróun heilbrigðisstarfsemi og í vísindastarfi og búnaðurinn veitir deildinni tækifæri til að vera þáttakandi í þeirri þróun og þekkingaröflun sem á sér stað í heiminum varðandi þessa tækni.
3. Margir speglunarlæknar koma að starfsemi speglunardeildar Landspítala og það er jákvætt að sem flestir fái tækifæri til að kynnast því að framkvæma ristilspeglanir þar sem þessarar tækni nýtur við.
4. Tækið getur orðið til þess að fleiri breytingar finnist við ristilspeglanir þegar það er notað.
Eftir sem áður er það háð speglunarlækni, speglunarstarfsfólki og umgjörð speglunar hvort það tekst að framkvæma fulla skoðun á ristlinum, með nægilega mikilli nákvæmni.
Það er sömuleiðis háð speglunarlækni hvernig brugðist er við því ef breytingar finnast og hvort ákveðið er að breytingin þurfi enga meðferð eða hvort eigi að taka sýni, fjarlægja breytingu eða koma skjólstæðingi í frekari meðferð með öðrum úrræðum. Stöðugt er unnið að þróun tækninnar og það er gott fyrir speglunardeild sem einingu innan háskólasjúkrahúss að fá tækifæri til að taka virkan þátt í beitingu þessarar tækni, á sama tíma og rannsóknir fara fram sem hannaðar eru til að mæla gagnsemi tækninnar.
Á myndinni eru frá vinstri:
Elín Hilmarsdóttir aðstoðardeildarstjóri speglunardeildar
Jóhannes V. Reynisson, Blái naglinn
Ólafur Björnsson, Kaupmannasamtökin
Ásgeir Ásgeirsson, Kaupmannasamtökin
Júlíus Þór Jónsson formaður Kaupmannasamtakanna
Magnús Konráðsson yfirlæknir speglunardeildar
Þórhildur Höskuldsdóttir hjúkrunardeildarstjóri speglunardeildar
Eyþór Theodórsson, AZ Medica/Medtronic