Frá skrifstofu forstjóra á Landspítala:
Viðbúið er að verkfall Eflingar hjá bílstjórum Samskipa, á olíuflutningabílum og við olíudreifingu, sem hófst í dag, 15. febrúar 2023, geti haft áhrif á starfsemi Landspítala.
Þau áhrif koma meðal annars fram í aðfangakeðjum og frálagskeðjum spítalans. Aðfangakeðjur eru mikilvægur hluti af lífæð spítalans sem þola illa röskun og mega alls ekki stöðvast. Þetta er til dæmis flutningur á lyfjum, matvælum, blóði og blóðhlutum, úrgangi og líni til og frá spítalanum.
Landspítali er ekki aðili að vinnudeilunni en vegna þeirra miklu áhrifa sem hún getur haft á birgja og þjónustuaðila hefur spítalinn sent formlega undanþágubeiðni til Eflingar sem nær til verkefna sem snúa að þjónustu við spítalann.
Ljóst er að margir okkar birgjar/þjónustuaðilar hafa einnig sjálfir sótt um og fengið undanþágu til starfa fyrir Landspítala.
Næstu dagar leiða enn frekar í ljós þau áhrif sem verkfallið kann að hafa á starfsemi Landspítala. Við erum í góðum samskiptum við birgja og þjónustuaðila sem og forystu Eflingar stéttarfélags. Með góðri samvinnu náum við vonandi að halda starfseminni sem eðlilegastri.