Project SEARCH starfsnáminu fyrir fatlaða verður haldið áfram, Guðmundur Ingi Guðbrandssonar, félags og vinnumarkaðsráðherra, Ás styrktarfélag og Landspítali undirrituðu 10. febrúar 2023 samning þess efnis.
Haustið 2022 hófu sex manns „Project SEARCH“ starfsnám á Landspítala, blandaður hópur fatlaðs fólks sem annars vegar lauk framhaldsskóla í fyrravor eða hafði reynslu af vinnu á sérstökum vinnustöðum ætluðum fötluðu fólki.
Starfsnemarnir lærðu störf á þjónustusviði spítalans, þrír voru í eldhúsi, einn í líni og tveir við rúmaþvott í Fossvogi og náðu þeir miklum framförum, öðluðust öryggi í þeim störfum sem þeim voru falin og aukna trú á eigin getu. Samstarfsfólkið mætti nemendunum af jákvæðni og var mjög hjálplegt í því sem máli skipti..
Ás styrktarfélag hóf undirbúning að náminu á árinu 2020 með samstarfi við Project SEARCH og undirritaði samning þar um. Project SEARCH leggur til námsefni, þjálfun fyrir starfsfólk, aðstoðar við að koma verkefninu af stað og veitir ráðgjöf eftir að það er hafið. Í upphafi árs 2022 fékk Ás styrktarfélag styrk frá félags- og vinnumálaráðherra til að fjármagna verkefnið og í kjölfarið kom Landspítali að samstarfinu með því að útvega aðstöðu til kennslu og starfsþjálfunar og tengilið sem sér um að finna störf til kennslu.
Nú er ljóst að framhald verður á þessu verkefni. Guðmundur Ingi Guðbrandsson undirritaði 36 milljóna króna stuðningssamning þess efnis í Hringsal á Landspítala ásamt fulltrúum frá Ási styrktarfélagi og Landspítala. Það þýðir að Ás styrktarfélag getur boðið fleirum að hefja starfsnám í haust.
Í tilefni af undirritun samningsins sýndu starfsnemarnir á Landspítala ráðherranum starfsvettvang sinn.
______________________________________________________________________________________________________________
Project SEARCH á uppruna sinn á Cincinnati Children´s Medical Center í Ohio í Bandaríkjunum. Erin Riehle sem starfaði sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsinu fór að velta fyrir sér hvers vegna fatlað fólk sem naut þjónustu sjúkrahússins sem börn starfaði þar ekki sem fullorðið fólk. Eins hafði spítalinn sett sér markmið um fjölbreyttan starfsmannahóp en hvergi var minnst á fatlað fólk. Hún hafði samband við Susie Rutkowski sem þá starfaði við sérskóla fyrir fötluð ungmenni til að kanna hvort þar væri fólk sem gæti hugsanlega komið til starfa. Það varð úr að til ráðningar kom en fljótlega sáu þær að fólkið þurfti lengri aðlögunarferli að störfunum. Þær þróuðu starfsnám sem byggði á innleiðingarferli hjúkrunarfræðinga. Á þeim 26 árum sem liðin eru hefur námskráin þróast heilmikið.
Project SEARCH er níu mánaða starfsnám fyrir fatlað fólk sem hefur lokið framhaldsskóla. Markmið námsins er að starfsnemar öðlist fjölbreytta vinnufærni sem nýtist þeim til að starfa á almennum vinnumarkaði. Auk þess er áhersla á að auka sjálfstraust og sjálfstæði.
Segja má að námið skiptist í fjóra hluta. Fyrstu þrjár vikur námstímans eru nemendur að læra ýmiss konar grunnþekkingu sem tengist vinnu svo sem samskipti, starfsreglur, öryggisreglur og ýmislegt fleira. Síðan hefst hið eiginlega starfsnám þar sem hver og einn starfsnemi vinnur í þremur starfsdeildum, 10 vikur í senn. Lögð er áhersla á að nemandinn fái þannig sem fjölbreyttasta reynslu á tímabilinu. Samhliða starfsnáminu er unnið að fræðslu um ýmislegt er varðar atvinnumál, réttindi, skyldur, framkomu, fjármál o.s.frv.
Nánari upplýsingar um Project SEARCH er að finna hér
Ás styrktarfélag - sjálfseignarstofnun með þjónustu við fatlað fólk