Vísindaráð Landspítala auglýsir eftir ágripum vísindaverkefna vegna uppskeruhátíðar vísinda á Landspítala, Vísinda á vordögum, sem haldin verður þann 26. apríl 2023. Einnig er samhliða óskað eftir tilnefningum til viðurkenningarinnar „Ungur vísindamaður Landspítala 2023.“
- Frestur til að skila inn ágripum er til miðnættis föstudaginn 10. mars 2023.
Innsend ágrip skulu kynna rannsóknarniðurstöður vísindaverkefna og nýsköpunarverkefna en ekki gæðaverkefna. Ágrip skulu vera á íslensku, nema í þeim tilfellum þar sem fyrsti höfundur er ekki íslenskumælandi. Samþykkt ágrip eru birt á rafrænu formi í fylgiblaði Læknablaðsins. Vanda skal til málfars. Ágrip verða birt eins og þau eru send inn. Vísindaráð áskilur sér rétt til að hafna ágripum sem uppfylla ekki kröfur um vísindalegt innihald eða ekki er vandað til.
Innsend ágrip eru grunnur vals á verðlaunum til starfsmanna og nema á Landspítala fyrir framúrskarandi verkefni.
Ágrip eru send inn með rafrænum hætti í rannsóknar- og styrkumsjónarkerfi Landspítala. Leiðbeiningar um gerð ágrips er að finna í rafræna eyðublaðinu og einnig hér.
Researchweb - innskráningargluggi
Ungur vísindamaður 2023
Ef fyrsti höfundur ágrips vill koma til greina sem „Ungur vísindamaður Landspítala 2023“ er hakað við þann valkost og fylltur skilmerkilega út sá hluti rafræna eyðublaðsins sem við á.
Skilyrði fyrir vali er að viðkomandi sé starfsmaður Landspítala, hafi lokið háskólaprófi á síðustu 7 árum og að ferilskrá og ritalisti fylgi með auk rökstuðnings af hendi viðkomandi af hverju hann ætti að verða fyrir valinu sem „Ungur vísindamaður Landspítala 2023.“ Innsend ágrip verða einnig hluti af mati því sem fram fer við val á þeim sem hlýtur titilinn.