Fjögur fyrirtæki af átta sem fengu styrki úr Fléttunni í janúar 2023 tengjast Landspítala. Fléttan er samstarfsverkefni háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, fjármálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.
Fléttustyrkir eru veittir til nýsköpunarfyrirtækja sem skapað hafa áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni innan kerfisins.
- Íslenska fyrirtækinu Sidekick Health var í samstarfi við göngudeildir hjartadeildar Landspítala veittur 9 milljóna króna styrkur til að innleiða fjarvöktun og fjarstuðning á göngudeild hjartabilaðra á spítalanum. Nánar hér
- Einurð fékk í samstarfi við Landspítala og fleiri 6 milljóna króna styrk til innleiðingar jafningaþjálfunar á Íslandi (stuðningur - þjálfun - nýsköpun) sem er ný áhersla í geðheilbrigðisþjónustu byggð á valdeflingu og notendamiðaðri þjónustu. Nánar hér
- Kara Connect ehf. fékk í samstarfi við Landspítala 9 milljóna króna styrk til að setja upp velferðartorg starfsmanna spítalans. Velferðartorgið er örugg vefgátt þar sem allt starfsfólk Landspítala hefur aðgang að stuðningi sérfræðinga í trúnaði en fram undan er að innleiða frekari þjónustu, tengingar og virkni sem eykur gæði verkefnisins, tryggir jafnræði og getur stutt fleiri stofnanir eða fyrirtæki. Nánar hér
- SVAI ehf. fékk í samstarfi við Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri 9 milljóna króna styrk til að innleiða lausn sem snýr að fækkun spítalasýkinga er verða með beinu snertismiti. Þetta felur í sér hátæknilausn með gervigreindarhugbúnaði ásamt skýjalausn. Nánar hér