Barnaspítali Hringsins var opnaður með viðhöfn 26. janúar 2003 eða fyrir réttum tuttugu árum.
Fjöldi gesta kom saman í anddyrinu til að fagna því að nýr Barnspítali Hringsins væri risinn, þar á meðal voru forseti Íslands, borgarstjóri, fjöldi þingmanna og ráðherra, Hringskonur, starfsfólk spítalans og margir fleiri. Ávörp voru þar og tónlistarflutningur.
Í tengslum við opnun Barnaspítala Hringsins voru honum færðar fjölmargar gjafir. Við opnunarathöfnina sjálfa var Hringskonum gefið gamalt píanó sem tengdist sögu Hringsins og þótti við hæfi að gera það í tilefni dagsins. Jafnframt var Hringskonum flutt nýtt ljóð, Barnaspítali Hringsins, eftir Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra við nýtt lag Hrafns Pálssonar deildarstjóra í heilbrigðisráðuneytinu, í útsetningu Ólafs Gauks. Söngfólk undir stjórn Garðars Cortes söng lagið. Fyrir athöfnina lék Guitar Islandico og í athöfninni söng Drengjakór Neskirkju, undir stjórn Friðriks S. Kristinssonar, við undirleik Reynis Jónassonar.
Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, blessaði nýjan Barnaspítala Hringsins. Síðdegis var nýja húsið opið almenning.
Við tók næstu vikur lokafrágangur hússins. Fyrstu sjúklingar á dagdeild komu 1. apríl og öll starfsemin hófst svo 3. apríl þegar barnadeildir við Hringbraut og í Fossvogi fluttust í hinn nýja Barnaspítala Hringsins.
Um opnun Barnaspítala Hringsins í ársskýrslu 2003
Myndir frá opnun Barnaspítala Hringsins
Vefur Barnaspítala Hringsins