Frá skrifstofu forstjóra:
Í ágúst 2021 átti sér stað óvænt dauðsfall sjúklings á geðdeild Landspítala. Landspítali tilkynnti andlátið strax til lögreglu og í framhaldinu til Embættis landlæknis. Í kjölfar rannsóknar lögreglu var ákæra gefin út á hendur starfsmanni spítalans. Það er á margan hátt erfitt og flókið fyrir Landspítala að tjá sig um mál sem þessi en forsvarsmenn spítalans telja rétt að veita eins miklar upplýsingar og hægt er á hverjum tíma. Heiðarleiki í samskiptum bæði við sjúklinga og samfélag er einn af lykilþáttum í starfseminni okkar.
Í kjölfar atviksins hafa ýmsir annmarkar á þjónustunni orðið okkur ljósir. Á það meðal annars við um mönnun innan geðþjónustunnar en ekki síður þætti sem snúa að þverfaglegri samvinnu innan spítalans í þjónustu sinni við einstaklinga með geðsjúkdóma. Spítalinn harmar andlát sjúklingsins og vottar aðstandendum samúð sína. Þá þykir spítalanum miður að hafa brugðist því starfsfólki sem starfaði við ófullnægjandi aðstæður á þessum tíma.
Eftir atvikið var strax farið í umbætur innan geðþjónustunnar. Heilbrigðismenntuðu starfsfólki á vöktum hefur verið fjölgað, innra skipulagi geðþjónustunnar breytt, meðal annars með fækkun legurýma, og stoðþjónusta við deildir aukin. Unnið hefur verið að því að efla færni starfsmanna með aukinni kennslu, þjálfun og handleiðslu. Með markvissum umbótum er eftir fremsta megni reynt að tryggja að sá lærdómur sem draga má af þessu hörmulega atviki leiði til aukins öryggis fyrir sjúklinga og starfsfólk okkar með skýrara verklagi, betri starfsaðstæðum og aukinni þjálfun starfsfólks.
Alvarleg atvik sem verða á Landspítala eru áfall fyrir spítalann. Markmið okkar er ætíð að veita örugga þjónustu í hæsta gæðaflokki. Þrátt fyrir það er útkoman ekki alltaf eins góð og vonast er til og í stöku tilvikum verða alvarleg atvik sem valda sjúklingum skaða eða leiða jafnvel til dauða. Mörg slíkra atvika stafa fremur af brestum í skipulagi þjónustunnar eða verkferlum en beinum mistökum starfsfólks. Mistök eiga sér þó óhjákvæmilega stað á Landspítala eins og á öðrum sjúkrahúsum og sum þeirra eru algjörlega óforsvaranleg. Alla daga er unnið hörðum höndum að því að fyrirbyggja alvarleg atvik og tryggja öryggi sjúklinga innan spítalans.
Það er mat okkar að þær umbætur sem orðið hafa á starfsemi geðþjónustunnar séu til þess fallnar að draga verulega úr hættu á alvarlegum atvikum og auka öryggi sjúklinga. Umfram allt er hugur spítalans hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna andlátsins.