Viktor Ellertsson hefur tekið við starfi deildarstjóra veitingaþjónustu Landspítala til að gegna í 12 mánuði.
Undir veitingaþjónustu Landspítala heyra framleiðslueldhús, ELMA matsalir/kaffihús og vefverslun með matvæli fyrir deildir spítalans. Daglega eru þar framleiddar um 5.200 máltíðir fyrir sjúklinga, starfsfólk og gesti. Matsalir ELMU eru níu talsins og kaffihúsin þrjú.
Viktor er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og meistaragráðu í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun. Undanfarin 10 ár hefur hann verið mannauðsstjóri á þjónustusviði með áherslu á kjarna aðfanga og umhverfis. Auk hlutverks mannauðsstjóra hefur hann komið að fjölmörgum verkefnum sem tengjast rekstri og þjónustu sviðsins. Viktor hefur því fjölbreytta reynslu af mannauðsstjórnun, umbreytingu á starfsemi, rekstri og þróun þjónustu í krefjandi starfsumhverfi Landspítala.
Viktor Ellertsson: „Ég er afar stoltur að fá tækifæri til að taka þátt í og leiða áfram þá jákvæðu þróun sem hefur átt sér stað í veitingaþjónustunni. Það hafa verið forréttindi fyrir mig að taka þátt í uppbyggingu mannauðs, reksturs og þjónustu undanfarin ár og ég er fullur tilhlökkunar fyrir þeim spennandi viðfangsefnum sem framundan eru hjá veitingaþjónustu Landspítala.“