BUGL ráðstefnan árlega verður næst haldin föstudaginn 27. janúar 2023. Viðfangsefni ráðstefnunnar er að þessu sinni skólaforðun, áskoranir og úrræði með yfirskriftinni „Raddir lífsins eru margar“.
Barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, stendur fyrir árlegum ráðstefnum þar sem markmiðið er að efla samvinnu þeirra í heilbrigðis-, félags- og menntakerfinu sem sinna þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir. Auk þess er markmiðið að vekja athygli á rannsóknum og nýjum úrræðum í meðferð barna og unglinga með geðraskanir. Fyrirlesarar hafa komið víða að og verið bæði innlendir og erlendir. Ráðstefnan er ætluð starfsfólki heilsugæslu, þjónustumiðstöðva, félagsþjónustu, barnaverndar, skóla og öðrum sem hafa áhuga.
Skólaforðun er meðvituð eða ómeðvituð hegðun sem barn eða unglingur sýnir þegar mæta á í skólann. Hegðunin birtist í erfiðleikum með að sækja skóla hvort sem um er að ræða heilan skóladag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma. (Kearney, Albano 2007). Rannsókn Velferðarvaktar 2019 sýndi að gera má ráð fyrir að 2,2% grunnskólanema, um eitt þúsund börn, glími við skólaforðun hér á landi sem rekja má til kvíða, þunglyndis eða erfiðra aðstæðna heima fyrir. Velferðarvaktin lagði til að fyrirbyggja skólaforðun með virkum stuðningsúrræðum við þau börn sem við hana glíma og að tekin verði upp samræmd skráning um allt land svo fylgjast megi með umfangi vandans hverju sinni.
Á ráðstefnunni í ár kemur fram fjölbreyttur hópur fyrirlesara með innsýn í viðfangsefni ráðstefnunnar, þær áskoranir sem blasa við og einnig verður fjallað um úrræði. Meðal fyrirlesara eru dr. Anne Marie Albano, sérfræðingur í hugrænni atferlismeðferð, sem verður með tvö erindi. Hún fjallar meðal annars um skólaforðun út frá víðu sjónarhorni en bendir einnig á gagnlegar leiðir til að takast á við áskoranir sem geta fylgt skólaforðun. Júlía Sæmundsdóttir félagsmálastjóri Múlaþings fjallar um Austurlandslíkanið. Það er forvarnarúrræði á vegum Múlaþings sem hefur reynst vel. Einnig fá raddir ungs fólks að heyrast, meðal annars verður Jóhanna Birna Bjartmarsdóttir, nemandi í menntavísindum og heilsueflingu við University of Florida, með erindi sem hún byggir á eigin reynslu.
BUGL ráðstefnan á Grand Hótel Reykjavík verður 27. janúar milli kl. 08:00 og 15:30. Streymt verður frá henni..