FRÁ SKRIFSTOFU FORSTJÓRA Á LANDSPÍTALA
6.janúar 2023:
Síðastliðnar vikur hefur reynt verulega á viðbragðsgetu spítalans vegna stóraukins fjölda innlagna sem rekja má til alvarlegra öndunarfærasýkinga. Einnig hefur tvisvar þurft að rýma bráðamóttökuna á fyrstu dögum þessa árs. Fyrst vegna alvarlegs bílslyss þar sem 10 slösuðust og svo vegna viðbragðs við mögulegu eiturefnaslysi í bandaríska sendiráðinu. Þrátt fyrir það hefur tekist að halda uppi öflugri bráðaþjónustu og ber að þakka það færni og reynslu starfsfólks Landspítala.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum lést nýlega einstaklingur sem hafði skömmu áður verið útskrifaður af bráðamóttöku Landspítala í kjölfar skoðunar og rannsókna. Starfsfólk Landspítala tekur sárt að hafa ekki getað komið í veg fyrir þetta andlát og vottar aðstandendum innilega samúð. Atvikið var tilkynnt samstundis til Embættis landlæknis sem mun yfirfara þá læknismeðferð sem einstaklingurinn fékk og skila niðurstöðu. Enn fremur er atvikið til ítarlegrar skoðunar innan spítalans með það að leiðarljósi að bæta öryggi sjúklinga.
Því miður eiga sér stað alvarleg atvik og jafnvel óvænt dauðsföll á öllum sjúkrahúsum, enda starfsemin í eðli sínu bæði viðkvæm og flókin. Yfirleitt eiga þau rætur að rekja til samverkandi þátta og oft eru slík atvik óháð færni starfsfólks. Á Landspítala eins og á öðrum sjúkrahúsum er lögð höfuðáhersla á að tryggja öryggi sjúklinga með margvíslegum verkferlum og þjálfun starfsfólks. Þannig er leitast við að halda alvarlegum atvikum í lágmarki. Ekki er þó hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að hætta á alvarlegum atvikum eykst þegar álag á starfsfólk er mikið, ekki síst þegar það er viðvarandi til lengri tíma.
Skortur á legurýmum á Landspítala hefur um árabil verið viðvarandi vandamál sem ekki hefur tekist að leysa. Síðastliðna mánuði hafa heilbrigðisyfirvöld leitt samstillt átak sem miðar að því að afla fleiri rýma fyrir einstaklinga sem þurfa búsetu á hjúkrunarheimili. Nokkur árangur hefur náðst við að flytja einstaklinga sem lokið hafa meðferð frá spítalanum og gerði það okkur kleift að standa af okkur það mikla álag sem ríkt hefur síðastliðnar tvær vikur. Jafnframt hafa margvísleg úrræði sem unnið hefur verið að á Landspítala til að efla þjónustu við bráðveika skipt sköpum, m.a. fjölgun legurýma, opnun bráðadagdeildar lyflækninga og efling stoðþjónustu til að létta undir með heilbrigðisstarfsfólki. Erfitt er að ímynda sér hvernig spítalanum hefði reitt af á undanförnum tveimur vikum ef ekki hefði verið búið að grípa til þessara aðgerða.
Loks er mannekla í röðum heilbrigðisstarfsmanna okkar stærsta áskorun og þá sérstaklega mönnun hjúkrunarfræðinga. Þetta vandamál er ekki einskorðað við Landspítala heldur er þetta vandamál í heilbrigðisþjónustu um allan heim. Það er því ærið verkefni og forgangsmál að auka samkeppnishæfni spítalans sem spennandi og metnaðarfullur starfsvettvangur. Með það fyrir augum hefur aukin áhersla verið lögð á bætt launakjör, starfsaðstæður, tækifæri til framþróunar í starfi og stuðning við starfsfólk. Nú er unnið að frekari verkefnum til eflingar allra þessara þátta og standa vonir til þess að þau beri ávöxt sem allra fyrst.