FRÁ SKRIFSTOFU FORSTJÓRA Á LANDSPÍTALA
29. desember 2022:
Undanfarnar vikur hefur álag á bráðaþjónustu Landspítala verið mikið. Má þetta aukna álag fyrst og fremst rekja til aukinnar tíðni alvarlegra veirusýkinga í öndunarvegi sem hefur leitt til þess að innlögnum hefur fjölgað umtalsvert á spítalann.
Þótt oft sé mikið álag á bráðamóttökunni hafa aðstæður undanfarna daga verið óvenju erfiðar og því mikilvægt að varpa eins skýru ljósi á atburðarrásina og mögulegt er.
Af hverju sköpuðust þessar aðstæður á bráðamóttökunni?
Yfir hátíðirnar hefur mikill fjöldi fólks þurft að leita á bráðamóttöku Landspítala með alvarleg veikindi á borð við slæmar öndunarfærasýkingar. Óvenju hátt hlutfall þeirra hefur þarfnast innlagnar á spítalann en sem dæmi má nefna að dagana 24.-27. desember 2022 voru 188 sjúklingar lagðir inn á Landspítala en heildarfjöldi bráðalegurýma á lyf- og skurðlækningasviðum spítalans er samtals 280. Heildarnýting á þessum 280 legurýmum er alla jafna yfir 100%, sem þýðir einfaldlega að rúmin eru fullnýtt, allt árið um kring. Innlagnir 188 bráðveikra sjúklinga á þremur dögum er því augljóslega gríðarlega krefjandi fyrir starfsemi Landspítala.
Sem fyrr segir þörfnuðust óvenju margir þeirra sem leituðu til bráðamóttöku innlagnar á fyrrgreindu tímabili. Sem dæmi um það má nefna að hlutfall innlagna af bráðamóttöku á legudeildir Landspítala er yfirleitt í kringum 15% en á annan í jólum var hlutfallið 31%.
Þegar svo margir þurfa að leggjast inn á svo skömmum tíma myndast flöskuháls á bráðamóttökunni. Þar eru 46 skoðunar- og meðferðarrými en á meðan leitað var leiða til að finna sjúklingum viðeigandi rými á legudeildum voru allt að 90 einstaklingar í 46 rýmum þegar verst lét.
Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala:
„Það er þekkt að ástand sem þetta getur skapast á bráðamóttökum sjúkrahúsa. Þegar slíkt gerist í stærri samfélögum er hægt með samstilltu átaki fleiri sjúkrahúsa að ná tökum á stöðunni. Sérstaðan hér á landi er sú að Landspítali er eina sérhæfða þriðja stigs sjúkrahúsið á landinu og því ekki hægt að dreifa álaginu með sama hætti og gert er erlendis við sömu aðstæður. Við þurfum því að leysa úr vandanum upp á eigin spýtur og höfum verið að gera það með góðum árangri að ég tel síðustu daga, þó að aðstæður hafi verið erfiðar. En einmitt vegna þessarar sérstöðu er brýnt að Landspítali búi yfir getu til að mæta auknu álagi.“
Hvernig var brugðist við?
Það má segja að þrekvirki hafi verið unnið í bráðaþjónustunni á Landspítala. Þung áhersla hefur verið lögð á að spítalinn þurfi að vinna saman sem ein heild við aðstæður sem þessar. Ekki sé um einangrað vandamál bráðamóttöku að ræða.
Álagi var dreift um spítalann með því að leggja fleiri sjúklinga en venjulega inn á legudeildir. Þá hefur tímabundið verið opnuð ný legudeild sem mönnuð er starfsfólki víðs vegar að af spítalanum. Ákall var sent til heilbrigðisstarfsmanna sem áhuga og vilja hafa á að leggja spítalanum lið með störfum sínum og eru þeir aðilar beðnir að hafa samband með tölvupósti á netfangið mannaudsteymi@landspitali.is.
Heilbrigðisráðuneytið boðaði til fundar með fulltrúum Landspítala og helstu aðilum sem veita heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og heilbrigðisstofnunum á suðvesturhorninu. Lögð var áhersla á þátttöku annarra aðila í heilbrigðisþjónustunni til að létta undir með spítalanum. Samstaða allra var áberandi en þung staða ríkir víðast hvar.
Öllum má vera ljóst að óhóflegt álag hefur verið á bráðamóttöku Landspítala um árabil sem vinna þarf bug á. Auk ýmissa úrræða innan Landspítala til að mæta langvarandi skorti á legurýmum fyrir bráðveika hefur í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld verið unnið að úrræðum fyrir aldraða. Á hverjum tíma liggur mikill fjöldi einstaklinga á spítalanum sem lokið hefur meðferð og bíður annarra úrræða svo sem búsetu á hjúkrunarheimili. Þetta eru einstaklingar sem eru of veikir til að hægt sé að útskrifa þá af spítalanum, þrátt fyrir heimahjúkrun og stuðning spítalans við heimahjúkrun. Spítalinn er því að sinna miklum fjölda sjúklinga sem hann í raun ætti ekki að vera að gera þegar litið er til skilgreinds hlutverks hans. Til að sambærilegar aðstæður skapist ekki aftur er brýnt að skapa úrræði fyrir þennan sjúklingahóp og er unnið að því.
Sterkur mannauður gerir hið ómögulega mögulegt
Af því sem hér hefur verið lýst liggur fyrir að mjög sérstök og alvarleg staða hefur verið uppi í bráðaþjónustu spítalans síðustu daga og verður eitthvað áfram. Einstakur mannauður stofnunarinnar gerir það að verkum að hægt er að halda uppi öruggri heilbrigðisþjónustu við sjúklinga með alvarleg veikindi. Spítalinn hefur sýnt það og sannað á síðustu mánuðum og árum að sterkur mannauður gerir hið ómögulega mögulegt. Yfirburðaárangur Landspítala á heimsvísu í gegnum Covid faraldurinn hefur án efa aukið færni og seiglu starfmanna spítalans sem reynist nauðsynlegt á tímum sem þessum.