Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala hefur tekið ákvörðun um val á framkvæmdastjórum í nýja framkvæmdastjórn spítalans. Alls barst 41 umsókn um 10 störf framkvæmdastjóra. Þrír umsækjendur drógu umsókn sína til baka.
Umsóknarferlið fór þannig fram að innsend umsóknargögn voru metin og út frá þeim voru 2-5 einstaklingar boðaðir í viðtal fyrir hvert starf. Að því mati loknu var tekin ákvörðun um að óska eftir frekari kynningu á framtíðarsýn og áformum fyrstu 100 dagana í starfi frá umsækjendum um nokkur starfanna. Loks var haft samband við umsagnaraðila og að því búnu var heildstætt mat lagt á hæfni umsækjenda um hvert starf.
Reynt var að hraða ferli ráðninga eins og mögulegt var án þess að það kæmi niður á gæðum ferlisins. Ekki hefur reynst unnt að ganga frá ráðningu í stöðu framkvæmdastjóra skurðlækningaþjónustu og skurðstofu og gjörgæsluþjónustu. Í ljósi þess hefur sú ákvörðun verið tekin að fela reyndum aðila innan sviðsins starf framkvæmdastjóra tímabundið.
Framkvæmdastjórn Landspítala verður skipuð eftirtöldum frá og með 1. janúar 2023.
Forstjóri
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala
Framkvæmdastjórar klínískra sviða
Már Kristjánsson, framkvæmdastjóri lyflækninga- og bráðaþjónustu
Vigdís Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri hjarta- og æðaþjónustu og krabbameinsþjónustu
Kári Hreinsson, framkvæmdastjóri skurðlækningaþjónustu og skurðstofu- og gjörgæsluþjónustu (ráðinn tímabundið)
Dögg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnaþjónustu
Guðný Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri öldrunar- og endurhæfingarþjónustu
Nanna Briem, framkvæmdastjóri geðþjónustu
Björn Rúnar Lúðvíksson, framkvæmdastjóri klínískrar rannsóknar- og stoðþjónustu
Framkvæmdastjórar stoðsviða
Svava María Atladóttir, framkvæmdastjóri þróunar
Gunnar Ágúst Beinteinsson, framkvæmdastjóri rekstrar og mannauðs
Tómas Þór Ágústsson, framkvæmdastjóri lækninga (ráðinn tímabundið vegna fjarveru Ólafs Baldurssonar)
Ólafur G. Skúlason, framkvæmdastjóri hjúkrunar
Loks hefur Þórunn Oddný Steinsdóttir verið ráðin í starf skrifstofustjóra á skrifstofu forstjóra.
Runólfur Pálsson
forstjóri Landspítala:
"Niðurstaða ferlisins er sú að ég hef valið framkvæmdastjórn sem ég tel búa yfir mikilli þekkingu á starfsemi spítalans og færni til að mæta þeim áskorunum sem framundan eru auk þess að hafa til að bera skýra sýn og metnaðarfullar áætlanir um framþróun spítalans hvort sem er á sviði klínískrar þjónustu, menntunar, vísindastarfs eða rekstrar.
Ráðningarferlið hefur í mínum huga varpað ljósi á einstakan metnað umsækjenda og áhuga fyrir óeigingjörnu starfi í þágu Landspítala. Fyrir það er ég afar þakklátur og fullur bjartsýni þegar horft er til framtíðar.“
Nýtt skipurit tekur gildi um áramót
Umsækjendur um stöður framkvæmdastjóra og skrifstofustjóra á Landspítala